14.7.2008 | 13:34
Framhalds ferðasaga
Kominn í vinnu eftir 3ja vikna frí og nú kemur framhaldið:
Já útsýnið í Chianti er ólýsanlegt og og ég hefði gefið mikið fyrir að vera með alvöru myndavél með linsu því þessar litlu digital vélar ná engri fjarlægð. Við vorum með lítinn garð með borði og stólum fyrir utan íbúðina okkar og þar borðuðum við alltaf morgunmat saman. Fórum svo gjarnan í smá sólbað við sundlaugina sem var steinsnar frá okkur og fengum okkur svo hádegismat áður en haldið var af stað í skoðunarferðir um nágrennið.
Það er allt í mjög lítilli fjarlægð frá okkur því við vorum mjög miðsvæðis. Flórens er kannski lengsti bitinn enda slepptum við því að fara þangað ( 1,5 klst ) Við heimsóttum Castellina nokkrum sinnum en það er smábær ( hilltown ) aðeins um 4 km frá okkur. Þar fundum við með smá hjálp góðan veitingastað sem við fórum tvisvar á. Heitir La Torre.
Tókum síðan einn dag í að heimsækja og skoða San Gimiagno sem er þekktasti " hill " bærinn þeirra. San Gimiagno á sér mikla og merkilega sögu og er hvað merkilegastur fyrir turnana sína sem er að ég held 11 talsins í dag. Fyrir mörgum öldum síðan voru þeir hvorki fleirri né færri en 80 talsins og voru merki um dramblæti íbúana þar sem kepptust um að reisa sér hæsta turninn. Það er mjög skemmtilegt að ganga um bæinn og skoða öll gömlu húsin, þröngu göturnar, kirkjurnar og fallegu minjagripa verslanirnar. Það var að vísu mjög heitt þarna eins og reyndar allan tímann í Chianti.
Á mánudagskvöldið fórum við öll á einn flottasta veitingastað sem til er í Chianti en hann var einmitt í Castellina. Þessi staður heitir Albergaccio og er með eina michelin stjörnu. Fengum okkur set menu og áttum yndislega stund. Maturinn var frábær, ekkert öfgakenndur en gerði mikið úr hefbundnum réttum héraðsins.
María og Ásthildur voru með okkur fram á miðvikudagsmorgun en þá keyrðum við þeim til Siena þar sem þær tóku lest til Trento. ( reyndar 3 lestir því þær þurftu að skipta tvisvar um lest ) Það var mikill grátur við viðskilnaðinn enda höfðum við átt frábærar stundir saman. Ásthildur, þrátt fyrir að vera aðeins 10 ára, hafði gaman af öllu sem okkur datt í hug og kvartaði lítið. Þær mæðgur eru yndislegar og ekki vandamál að vera með þeim.
Sama morgun hittum við Francesco Riviera, okkar mann hjá Fonterutoli og hann tók okkur í túr um vínekrurnar. Keyrði eins og vitleysingur á jeppa sem mátti muna sinn fífil fegri og ég var fram í og var enn hræddari en Anna ! Fórum svo og smökkuðum vínin þeirra frá þremur svæðum þ.e. Chianti, Maremma og Sikiley. Þetta voru engin smá vín og við fengum svo að taka þau með okkur til baka. Skoðuðum svo vínkjallarann þeirra sem er splunkunýr og þvílíkur kjallari ! Örugglega sá flottasti í Chianti. Þegar við vorum svo aftur komin heim í íbúð þá héldum við áfram að smakka vínin og fengum svo að taka 2 þeirra með okkur á veitingastaðinn þeirra í Fonterutoli. Úr þessu varð því smá jíbbí hjá okkur
Vöknuðum samt tiltölulega snemma á fimmtudegi og fórum til Siena. Siena er ægifögur borg og við gengum hana fram og til baka í brakandi hita og skoðuðum það sem markverðast var. Vorum því heldur þreitt þegar við komum til baka þann daginn.
Fórum svo í almennings sundlaug morguninn eftir sem var í Castellina og sóluðum okkur aðeins. Ef einhverjum finnst dýrt í sund á Íslandi bíðið bara því það kostaði 7 evrur í þessa laug og svo þurfti að borga 2,5 eur fyrir bekkinn ! Fórum svo seinni partinn til Greve sem er enn einn smá bærinn. Skoðuðum hann og borðuðum þar kvöldmat. Síðan heim á leið og pökkuðum um kvöldið.
Héldum svo af stað kl. 8.30 um morgunin og keyrðum alla leið til Mílanó sem tók okkur um 4,5 klst. Allt gekk samkvæmt áætlun og við vorum lent í Keflavík um kl. 20 um kvöldið. Mikið var nú gott að sofa í kulda í eigin rúmi ...
Þessi ferð var æðisleg að öllu leiti og ég mana alla að heimsækja Toscana og sér í lagi Chianti. Það sem líka lyfti ferðinni upp var félagsskapurinn við þær mæðgur meðan þær voru með okkur.
Bella Toscana !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)