28.7.2008 | 09:48
Fyrsta tjaldútilegan
Loksins, loksins tjölduðum við með pompi og prakt. Renndum af stað seinni part föstudags með skottið fullt af viðlegubúnaði og héldum sem leið lá vestur á Snæfellsnes. Töluverð umferð á leiðinni og þegar komið var á nesið þá var Kári farinn að láta til sín taka og varla stætt á Vegamótum þar sem Anna þurfti að pissa fyrsta bjórnum. Ákváðum því að renna okkur yfir til Ólafsvíkur og leita fanga norðan megin. Vissum að það þýddi ekkert að fara á Grundafjörð enda Grundarfjarðardagar þar í gangi og allt fullt. Leist vel á tjaldstæðið við Ólafsvík, lítið og nett og við vorum einu íslendingarnir þar. Vorum að tjalda og hita grillið um kl. 21 þegar flestir útlendingarnir voru að fara að sofa en þeir um það. Fórum svo í göngutúr í blíðskaparveðri um kvöldið. Sem sagt, fundum veðrið norðan megin.
Ég vaknaði náttúrulega nokkrum sinnum um nóttin við að regnið buldi á tjaldinu en það var bara þægileg tilfinning því ég var þess fullviss að það myndi stytta upp daginn eftir. Það var eins og við manninn mælt, sólin farin að skína þegar við vorum að borða morgunmatinn úti daginn eftir. Hins vegar fór allt í einu að blása og það ekkert smáræði. Ég var skíthræddur um tíma að tjaldið myndi fjúka á haf út og eyddi klukkutíma í að reyra það eins mikið niður og ég gat. Létum svo slag standa og skelltum okkur í sund á Ólafsvík. Þegar úr sundi var komið hafði sem betur fer lægt mikið og tjaldið var enn á sínum stað. Um miðjan dag komu svo Sigga H og Steini og eitthvað seinna komu Inga Klemma og Hjálmar þannig að við vorum orðin 6 saman og til í allt. Enda upphófst mikið fjör við söng, grillstemningu og fl, útlendingum ekki til mikillar gleði. Okkur var svo sem alveg sama, það eru ekki þeir sem eiga Ísland. Við fórum reyndar út í skóg og fengum okkur þar Cointreau og kakó með rjóma og héldum áfram söng og gleði. Í þessum hópi er mikil gleði sem ekki er hægt að beisla. Eins og reyndar vindinn því meðan við vorum að borða komu vindkviður og nokkur rauðvínsglös fuku yfir okkur og vorum við því orðin vel rauðvínslegin
Daginn eftir var þvílík rjómablíða að við fórum ekki af stað fyrr en seint um daginn og stoppuðum þá á Hellnum til að fá okkur fiskisúpuna frægu. Tókum svo Hvalfjörðinn til baka, bæði af því að við heyrðum af biðröð við göngin og langt síðan við höfðum keyrt þar. Vorum því ánægð og þreitt þegar við komum heim í gærkveldi.
En veðurfræðingarnir ! Ó boj. Spáin var 4-5 mtr og léttskýjað alla helgina á Snæfellsnesi en við fengum hellirigningu, hávaðarok og bara heppin að það skildi ekki koma haglél líka. Moral of this story: í guðanna bænum ekki fara eftir veðurfræðingum þegar þið skipuleggið ferðir út á land !
Er strax farinn að skipuleggja tjaldferð næstu helgi ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)