Austurlenskt nudd

Ég er búinn að vera með doða í 3 puttum undanfarið og var ráðlagt að fara í nudd af heimilslækni. Nú ég fór í nudd á Kínverska  náttúrulækningastofu á Hverfisgötunni og er algerlega agndofa eftir. líka í puttunum þremur.

Það byrjaði á því að kínverji tók á móti mér sem talaði nánast enga íslensku og enga ensku. Held reyndar að hann hafi verið ágætur í kínversku en hef ekki nógu mikla þekkingu til að skera úr um það. Svo kom " my boss " sem talaði aðeins betri íslensku. Nú ég var drifinn inn í herbergi og settur á grúfu á bekk með andlitið ofaní holu. Ég sá lappirnar á kínverjanum undan borðinu og sá þegar hann fór úr skónum og hvarf svo allt í einu. Næst finn ég þegar hann er kominn upp á bakið á mér og farinn að traðka á mér öllum hátt og lágt.  Hann staldraði sérlega lengi ofaná þjóhnöppunum og það er óvíst að ég geti haft hægðir á næstunni. Síðan var ég nuddaður hátt og lágt, snúið við eins og kjúklingi með vissu millibili og klipinn hér og þar. Allan tímann spurði hann mig " hurt ? hurt ?" og ef ég hefði svarað því neitandi hefði ég verið dáinn. Síðan setti hann einhvern slöngivað á hökuna á mér og fór í reiptog við hausinn á mér og ég var skíthræddur um að hann myndi slíta hann af.

Allan tímann var hann svo að spyrja ( að ég held ) hvort doðinn í fingrunum væri ekki farinn en ég var ekki var við neina breytingu. Nú voru góð ráð dýr en þá var kallað á bossinn og hann tók mig hálstaki og reyndi af fremsta megni að slíta af mér hausinn. Það tókst sem betur fer ekki en ég heyri enn smellina í hálsinum. Ekki fór doðinn og þá fór hann og kom inn með fullt af nálum sem hann stakk í mig hér og þar í handlegginn og hætti ekki fyrr en ég æpti. Síðan " slappaði " ég af í 5 mínútur áður en ég mátti klæða mig.

Ég kom svo fram og hitti bossinn sem tjáði mér að ég þyrfti að koma tvisvar í viðbót því þetta tæki allt tíma. Fyrir þessa 3 tíma snaraði ég fram 27.000 krónum og ég ætla hreint að vona að hann hafi rétt fyrir sér með að þetta lagist smám saman. Ég á tíma aftur í fyrramálið og við sjáum hvað setur. Ég ætla að kíkja aðeins og kínversku orðabókin mína til öryggis í kvöld því mér fannst margt af því sem þeir sögðu sín á milli vera glettilega líkt " dauðans matur " eða " vonlaust case "

Læt ykkur fylgjast með og vona að þetta sé ekki mitt síðasta blogg ...Sick


Vorboðinn ?

Ég grillaði í fyrsta skipti í gærkveldi og drakk ískaldan bjór með. Með skjálfandi hendur skellti ég grillinu í gang einn tveir og bingó og grillaði svínakamb beinlausan. Æðislega gott og ég opnaði meira að segja rauðvín með sem hentaði einkar vel rauða nefinu.

Vorboðinn ? tja ..... 


Námið

Var að fá einkunnir úr þessum áfanga þ.e. úr 2 hópverkefnum og prófinu. Var hæstur með 8,5 í meðaleinkunn.

Kallinn Smile


Norðurferðin

Við komumst heim við illan leik í gær úr annars frábærri norðurferð.

Við byrjuðum á Sauðárkróki á fimmtudag og vorum við opnun á Frístundarhúsinu sem búið er að vera draumur Maríu í langan tíma. Langþráður draumur orðinn að veruleika og Sauðárkrókur búinn að staðsetja sig sem frumherja í því að efla samskipti fjölskyldu og mismunandi aldurshópa. Til hamingju með þetta María og Sauðárkókur. Vorum svo í góðu yfirlæti hjá Maríu og Ómari að venju.

Á föstudag fórum við svo norður til Akureyrar því aðal tilgangur þessarar ferðar var að syngja í brúðkaupi hjá dóttur vina okkar, þeim Gunni og Steingrími. Það var eins og við manninn mælt þegar þau eru annars vegar, það var höfðinglega tekið á móti okkur. Fengum lánaða fallega íbúð á meðan dvöl okkar stóð og eftir okkur beið freiðivín, ávextir og falleg handklæði á rúmum sem búið var að bródera með nafni okkar beggja. Gunnur er einstök kona.

Nú, okkur var boðið út að borða á Rub 23 á föstudagskvöldið þar sem við áttum notalega stund og daginn eftir var byrjað að snjóa. Það snjóaði svo og snjóaði allan daginn og ég var farinn að óttast að við kæmumst ekki til baka fyrr en með vorinu ...Blush Örugglega meters nýfallinn snjór.

Jæja, við fórum svo á æfingu með organistanum en við sungum í Akureyrarkirkju hvorki meira né minna.  Organistinn var reyndar úr Glerárkirkju. María kom svo til Akueryrar þannig að þær vinkonur fengum smá tíma saman.

Við sungum svo í brúðkaupinu í kirkjunni og það gekk afar vel. María Björk og Ingvi pabbi hennar komu og hlustuðu á okkur. Sungum sálm, Sól Rís og Jörð, allt í 2 röddum. Síðan var brúðkaupsveislan í Ketilshúsi og þvílík veisla ! Glæsileg brúðhjón þau Hulda og Þórir, glæsilegir foreldrar og ekki síst, glæsilegur veislustjóri hann Vignir. Það hélt áfram að snjóa allan tímann ...vorum komin heim um kl. 2 um nóttina.

Daginn eftir var útlitið sérlega slæmt, sást varla út fyrir snjóbyl og fjúki en við ákváðum samt að láta slag standa og leggja í hann suður. ( fékk meira að segja Önnu til að samþykkja það, hún var reyndar ótrúlega róleg allan tímann )

Stærsta hluta ferðarinnar var mjög blint og hált og sér í lagi á Holltavöruheiði þar sem maður rétt sá í næstu stiku. Við komumst hins vegar heil á höldnu heim eftir ævintýralegan og umfram allt skemmtilegan túr. Þessi fjölskylda öll sem við vorum að syngja fyrir er algerlega sér á parti. Ótrúlega flott Smile

Vorum frekar þreytt í gærkveldi og sofnuðum " frekar " snemma Sleeping


Krókurinn

Er staddur á Króknum með góðri vinkonu minni henni Ásthildi í góðu yfirlæti. Örlítil snjókoma og kalt í veðri og við erum á leið norður.Wink

Chiao for now.


Sýndarveruleiki

Það er ótrúegt að maður skuli lesa um slíkar barsmíðar í skólum landsins nánast í hverri viku. En við hverju má svo sem búast þegar foreldrar leyfa börnum sínum að alast upp við ótrúlega ofbeldisfulla tölvuleiki sem gera út á miskunnarlausar barsmíðar og dráp ? Hugsanlega þurfa foreldrar aðeins að fara skoða sinn eigin rann því það er ekki hægt að kenna skólunum um þetta endalaust. Það má ekki kaupa knallettu byssu handa börnunum en tölvuleiki, það er allt annar handleggur.

Ef eitthvað ætti að banna í þessu blessaða bann þjóðfélagi okkar þá eru það slíkir leikir. Getur einhver bent á eitthvað gott eða jákvætt við slíka leiki ?


mbl.is Ráðist á nemanda í Sandgerðisskóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljósgeislar allt í kring

Úti skín sólin glatt og kastar ljósgeislum sínum yfir landsmenn. Ég er búinn að fá 2 ljósgeisla á stuttum tíma, hana Heklu og bíb Andradóttur ( veit nafnið :) ) Kíkti á nýju lilluna bæði á laugardag og sunnudag, alger engill.  Ætla svo að kíkja á númer 2 og 3 á eftir því ég hef ekki séð þau í nokkra daga. Stal myndum frá fésinu hennar Erlu og setti hér inn.

Annars var helgin hektik. Próf fyrir hádegi á laugardag og svo undirbúningur fyrir Vox Feminae árshátíð þar sem við Anna vorum með leikrit í gangi. Ég skrifaði handritið af því í síðustu viku með próflestrinum. Uppskárum mikinn hlátur og ég held að þetta hafi slegið í gegn. Svo var dansað fram eftir og við skemmtum okkur konunglega.

Tókum því bara rólega í gær, hvort sem fólk trúir því eður ei. Náðum í frábæra mynd fyrir kvöldið, Farinelli og nutum þess listaverks.

Svo er það Sauðárkrókur og Akureyri næstu helgi ....Ég hlakka rosalega til að keyra þangað í hálku og hríðarbil með aðstoðar ökumanninn mér við hlið. Ég geri fastlega ráð fyrir að heyra ekkert þegar komið er á leiðarenda og vera verulega lurkum laminn hægra megin á líkamanum. ( ´öskur og óp..það er bíl !, það er bíll framundan !!..arg .. ) eins og það sé eitthvað óvenjulegt. Hugsanlega læði ég eyrnatöppum í eyrun þegar Anna sér ekki til en við sjáum hvað setur.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband