18.7.2008 | 10:51
Náttúran heillar
Ég hætti í fyrra fallinu í vinunni í gær, keypti 2 bakka af köldum mat, annars vegar sushi handa mér og hins vegar salat með kjúklingi handa Önnu og hélt í áttina til Krísuvíkur. Ég fór með allar veiðigræjurnar og Anna skildi mig eftir við Kleifarvatn og hún hélt svo áfram til Grindavíkur til að heimsækja Önnu Siggu frænku sína.
Ég var búinn að heyra sögur af stórfiskum bæði urriðum og bleikjum sem veiðst höfðu í Kleifarvatni undanfarið og setti saman flugustöngina, kaststöngina og jafnvel beitustöngina. Allt prófaði ég og eftirtekjan var heldur rýr. Missti 3 bleikjur og náði einni. Var þó með meiri afla en þeir sem voru að veiða í kringum mig. Ég reyndar sá bíla út um allt og menn sem örugglega höfðu frétt það sama og ég voru hringinn í kringum vatnið. Kannski var ég bara á vitlausum stað ...
Anna kom svo aftur kl. 20 og við settumst í laut og opnuðum litla hvítvínsflösku ( sem reyndist ónýt ) og snæddum kvöldmatinn. Sérlega kósí. Héldum svo heim á leið eftir vel heppnaða náttúruferð. Þarna er ægifagurt og vel þess virði að kíkja í bíltúr og fara í göngutúr.
Það verður kósíkvöld í kvöld ( að ég held ... ). Maður verður líika stundum að slaka á
Á morgun er svo hörku fjör en þá förum við í útskriftarpartí hjá stjórnmálafræðingnum henni Írisi minni. Djús og djamm
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.7.2008 | 09:44
Kónguló, kónguló vísaðu mér á berjamó
Skrítið nafn kónguló og ekki batnar það við fleirtöluna, kóngulær. Það hefur eitthvað verið að þeim sem bjó til þetta nafn. Það hefur hins vegar verið mikið að þeim aðila sem fann upp kóngulær yfirhöfuð ! Þetta eru ótrúlega ljót og leiðinleg dýr sem gera ekkert annað en að skapa vandræði.
Þegar ég gekk inn í svefnherbergi í gærkveldi, hálfnakinn að sjálfsögðu, fannst mér eins og ég hefði gengið í gegnum kóngulóarvef, í það minnsta einn þráð en var ekki viss. Vadr aðeins að stússa inni í herbergi og fór svo aftur út og viti menn, mér fannst ég ganga aftur í gegnum vefinn. Nóta bene ég er mjöööög viðkvæmur fyrir slíku og finn t.d. fyrir rykkornum ef ég geng yfir þau. Mér varð nú ekki um sel og sá fyrir mér að ég myndi vakna um morguninn umvafinn kóngulóarvef, margstunginn og væri jafnvel orðinn að kóngulóarmanninum. Gæti mig jafnvel hvergi hrært í slímugum vefnum. Ég fór því á stjá að leita að hugsanlegu kvikindi sem væri að spinna svikulan vef sinn inni í svefnherberginu mínu. Ég leitaði undir rúmi, í fatahrúgunni á stólnum en fann ekkert óvenjulegt. Þegar ég kom svo ánægður út úr svefnherberginu sé ég kvikindið á harðahlaupum inn á bað, stórt loðið og ógeðslegt. Ég var snöggur að þrífa klósettpappír og náði henni á hlaupum. Opnaði svo klósettsetuna og nú er kvikindið að synda baksund einhver staðar úti í miðju Atlandshafi veltandi fyrir sér hvað kom fyrir það. Eitt er víst, kóngulóin valdi rangan mann að kljást við
Fórum í grill til Ingu og Hjálmars í gærkveldi og áttum notalega stund með þeim og Siggu H.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.7.2008 | 11:16
Framhalds framhalds ferðasaga
Við létum nú svo sem ekki deigan síga þegar heim var komið því strax daginn eftir að við komum heim, á sunnudeginum fórum við að heimsækja Ingu Klemmu og Hjálmar í bústað í Efsta Dal og gistum þar í blíðskaparveðri eina nótt.
Viorum svo heima 1 dag og fórum svo af stað í tjaldferðalag hringinn um landið með Steina, siggu H, Ingu Klemmu og Hjálmari. Lögðum af stað á þriðjudagskvöldið og héldum norður til Akureyrar. gistum þar í fínni íbúð sem Blaðamannfélagið á í 2 nætur. Við strákarnir fórum að veiða á miðvikudeginum í Ljósavatn meðan stelpurnar spókuðu sig á Akureyri. Fengum nokkra titti sem dugðu í sashimi um kvöldið.
Héldum svo austur á bóginn á fimmtudeginum og stoppuðum í jarðböðunum við Mývatn. Þetta er glæsilegur staður og þeim mývetningum til sóma. Glampandi sól var og þvílíkt útsýni ! Héldum svo áfram á Egilstaði þar sem við ætluðum að tjalda í Atlavík. En stundum fara hlutirnir ekki alveg eins og maður vill því á leiðinni var okkur öllum boðið í mat hjá Rannveigu vinkonu stelpnanna á Egilsstöðum. Hún er nýflutt inn í glæsilegt parhús og búin að innrétta það mjög fallega. Það var náttúrulega bjór og rauðvín og 25 mínútna akstur inn í Atlavík þannig að við urðum að gista hjá henni. Andri kom til okkar þá um kvöldið en hann býr á Egilstöðum þessa stundina og tjáði okkur að okkur væri boðið í mat hjá tengdó ( kærastan hans hún Erla er frá Egilsstöðum ) kvöldið eftir. Sem þýddi náttúrulega meiri bjór og rauðvín og enn var 25 mín akstur inn í Atlavík þannig að enn var gist hjá Rannveigu á Egilsstöðum. Sem betur fer er hún ótrúlega gestrisin manneskja. Þá var kominn laugardagur og tjaldið góða enn óhreift í bílnum. Keyrðum heim á leið og gistum á Hótel Klaustri hjá Kalla vini mínum sem reyndist okkur betri en enginn þar sem mjög erfitt var að fá gistingu. Það hellirigndi nótabene þannig að tjaldið fékk að hvíla sig áfram.
Skemmst frá því að segja að við komum heim á sunnudegi úr tjaldferðalaginu án þess að taka upp tjaldið. Fúlt. Ég var búinn að sjá fyrir mér að sitja fyrir utan tjaldið með tjaldborðið og tjaldstólana, grilla á kolum, skvetta aðeins í sig og fara í frisbí.
En , stundum fara hlutirnir ekki alveg eins og maður ætlar eða vill.
Allt hefur þó sinn gang og við kynntumst vel henni Rannveigu sem fór með okkur eins og hvítvoðunga og stjanaði við okkur. Við hittum í fyrsta sinn foreldra Erlu þau Grétar og Völu og nutum einstakrar gestrisni þeirra í mat og drykk. Það var því verulega gaman að dvelja á Egilsstöðum og kynnast nýju fólki.
Við tjöldum bara seinna en þó ekki næstu helgi því þá er útskriftarveisla hjá Írisi minni. Hörku fjör !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.7.2008 | 13:34
Framhalds ferðasaga
Kominn í vinnu eftir 3ja vikna frí og nú kemur framhaldið:
Já útsýnið í Chianti er ólýsanlegt og og ég hefði gefið mikið fyrir að vera með alvöru myndavél með linsu því þessar litlu digital vélar ná engri fjarlægð. Við vorum með lítinn garð með borði og stólum fyrir utan íbúðina okkar og þar borðuðum við alltaf morgunmat saman. Fórum svo gjarnan í smá sólbað við sundlaugina sem var steinsnar frá okkur og fengum okkur svo hádegismat áður en haldið var af stað í skoðunarferðir um nágrennið.
Það er allt í mjög lítilli fjarlægð frá okkur því við vorum mjög miðsvæðis. Flórens er kannski lengsti bitinn enda slepptum við því að fara þangað ( 1,5 klst ) Við heimsóttum Castellina nokkrum sinnum en það er smábær ( hilltown ) aðeins um 4 km frá okkur. Þar fundum við með smá hjálp góðan veitingastað sem við fórum tvisvar á. Heitir La Torre.
Tókum síðan einn dag í að heimsækja og skoða San Gimiagno sem er þekktasti " hill " bærinn þeirra. San Gimiagno á sér mikla og merkilega sögu og er hvað merkilegastur fyrir turnana sína sem er að ég held 11 talsins í dag. Fyrir mörgum öldum síðan voru þeir hvorki fleirri né færri en 80 talsins og voru merki um dramblæti íbúana þar sem kepptust um að reisa sér hæsta turninn. Það er mjög skemmtilegt að ganga um bæinn og skoða öll gömlu húsin, þröngu göturnar, kirkjurnar og fallegu minjagripa verslanirnar. Það var að vísu mjög heitt þarna eins og reyndar allan tímann í Chianti.
Á mánudagskvöldið fórum við öll á einn flottasta veitingastað sem til er í Chianti en hann var einmitt í Castellina. Þessi staður heitir Albergaccio og er með eina michelin stjörnu. Fengum okkur set menu og áttum yndislega stund. Maturinn var frábær, ekkert öfgakenndur en gerði mikið úr hefbundnum réttum héraðsins.
María og Ásthildur voru með okkur fram á miðvikudagsmorgun en þá keyrðum við þeim til Siena þar sem þær tóku lest til Trento. ( reyndar 3 lestir því þær þurftu að skipta tvisvar um lest ) Það var mikill grátur við viðskilnaðinn enda höfðum við átt frábærar stundir saman. Ásthildur, þrátt fyrir að vera aðeins 10 ára, hafði gaman af öllu sem okkur datt í hug og kvartaði lítið. Þær mæðgur eru yndislegar og ekki vandamál að vera með þeim.
Sama morgun hittum við Francesco Riviera, okkar mann hjá Fonterutoli og hann tók okkur í túr um vínekrurnar. Keyrði eins og vitleysingur á jeppa sem mátti muna sinn fífil fegri og ég var fram í og var enn hræddari en Anna ! Fórum svo og smökkuðum vínin þeirra frá þremur svæðum þ.e. Chianti, Maremma og Sikiley. Þetta voru engin smá vín og við fengum svo að taka þau með okkur til baka. Skoðuðum svo vínkjallarann þeirra sem er splunkunýr og þvílíkur kjallari ! Örugglega sá flottasti í Chianti. Þegar við vorum svo aftur komin heim í íbúð þá héldum við áfram að smakka vínin og fengum svo að taka 2 þeirra með okkur á veitingastaðinn þeirra í Fonterutoli. Úr þessu varð því smá jíbbí hjá okkur
Vöknuðum samt tiltölulega snemma á fimmtudegi og fórum til Siena. Siena er ægifögur borg og við gengum hana fram og til baka í brakandi hita og skoðuðum það sem markverðast var. Vorum því heldur þreitt þegar við komum til baka þann daginn.
Fórum svo í almennings sundlaug morguninn eftir sem var í Castellina og sóluðum okkur aðeins. Ef einhverjum finnst dýrt í sund á Íslandi bíðið bara því það kostaði 7 evrur í þessa laug og svo þurfti að borga 2,5 eur fyrir bekkinn ! Fórum svo seinni partinn til Greve sem er enn einn smá bærinn. Skoðuðum hann og borðuðum þar kvöldmat. Síðan heim á leið og pökkuðum um kvöldið.
Héldum svo af stað kl. 8.30 um morgunin og keyrðum alla leið til Mílanó sem tók okkur um 4,5 klst. Allt gekk samkvæmt áætlun og við vorum lent í Keflavík um kl. 20 um kvöldið. Mikið var nú gott að sofa í kulda í eigin rúmi ...
Þessi ferð var æðisleg að öllu leiti og ég mana alla að heimsækja Toscana og sér í lagi Chianti. Það sem líka lyfti ferðinni upp var félagsskapurinn við þær mæðgur meðan þær voru með okkur.
Bella Toscana !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.7.2008 | 20:49
Ferðasaga
Loksins er ég tengdur en hef þó gert nokkrar tilraunir á Ítalíu til að blogga en gat aldrei sent bloggið frá mér. Ég er enn í fríi og fer norður á morgun ásamt Siggu h, Steina, Hjálmari og Ingu klemmu og hled svo austur á bóginn. hér ætla ég þó að stikla á stóru um feðina:
Við lenntum í mílanó á réttum tíma eða um 10.30 um kvöld og rétt náðum að sækja bílaleigubílin. Ég tók Fiat Bravo sem reyndist hinn ágætisti bíll. f´+orum beint á hótel við flugvöllinn og Elsa leiðbeindi okkur þangað ( Elsa er navigatorinn okkar sem ég tók með - Garmin )
Fórum svo snema af stað til La Spezia og tók ferðin ekki nema um 1,5 tíma, anna hafði ekki einu sinni tíma til að vera hrædd einhverra hluta vegna var gatan sem hótelið okkar var við ekki inn í Elsu þannig að það var ekki þrautalaust að finna það. Fundum það á endanum og vorum komin í göngutúr niður í miðbæ um leið. Svo sem ekkert merkilegur bær nema fyrir þær sakir að hann er vel staðsettur til að fara í sglingu um Cinque Terre. Dagin eftir keyrðum við til Pisa til að sækja þær yndislegu mæðgur, Maríu Björk og Ásthildi. Það urðu miklir fagnaðarfundir þegar við hittumst á flugvellinum í Pisa og svo skoðum við skakka turnin o.fl áður en við héldum til bakatil La Spezia.
Dagin eftir tékkuðum við okkur út og fórum í bát snemma um morguninn til að skoða Cinque Terre sem er eitt af furðum veraldar. Ægifögur lítil þorp sem hanga nánast í lausu lofti í fjallshlíðum. Veðrið var frábært 32°hiti og glampandi sól. Við fórum úr bátnum, í Monterosso og dvöldum þar í 2 tíma, drukkum hvítvín og lögðumst á ströndina. Þessi ferð var algert æði og fegurðin mikil. Þegar í land var komið um kl. 17 þá ókum við beint niður til baðstrandabæjarins Viareggio til þess að sóla okkur innan um fína og flotta fólkið. Það áttum við 2 góða daga, á ströndinni, í göngutúrum og snæddum ljúffengan ítalskan mat. Létum okkur meira að segja hafa það að fá okkur fisk.
Tékkupðum okkur út á laugardagsmorgni og héldum til Chianti, nánar tiltekið Fonterutoli. Heimsóttum í leiðinni fæðingarbæ Puccinis, Lucca og dvöldum þar í ógurlegum hita í dálítinn tíma. Þegar við komum svo til Fonterutoli þá áttum við ekki orð. Fegurðin sem við okkur blasti er ólýsanleg og íbúðin sem við fengum var eins og úr gamalli bíómynd. Allt í gömlum stíl og andinn var slíkur að Ásthildur var óþreytandi við að leita að leynidyrum og þess háttar. Hún fann t.d. ofan í gömlu kofforti handskrifaðar skýrslubækur frá því 18hundruð og eitthvað ! Það er eiginlega ekki hægt að lýsa því hvernig var að vera þarna, gamla fólkið sitjandi fyrir utan litlu íbúðirnar sínar alltaf brosandi og bjóðandi góðan daginn, bon giorno eða góða kvöldið buon sera. Okkur fannst öllum eins og við værum komin í Paradís og útsýnið, ó mæ god !
En, nóg í bili, þarf að fara heim að pakka niður í töskur því nú skal Ísland heimsótt. Meira seinna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)