Fyrstu flugufiskar sumarsins

Jæja þá eru mínir fyrstu flugufiskar sumarsins komnir á land. Við Steini gerðum ágætan túr í vatn í nágrenni Reykjavíkur í gærkveldi. Fengum saman 12 urriða sem voru góðir pundfiskar hver. Setti inn nýja mynd af mér í náttúrunni með fiskana.

Þegar ég kom heim um kl. 12 í gærkveldi var Anna náttúrulega sofnuð og eldhúsborðið heima var undirlagt af alls kyns náttúruvænni og lífrænni matvöru. Anna er að flippa að ég held og þið farið nú ekkert lengra með það. Hún fór í tíma hjá einhverri gúru konu um daginn sem sagði henni hvað hún mætti borða samkvæmt blóðflokknum (A+) hennar. Það er skemmst frá því að segja að hún má nánast ekki borða neitt.  Engar mjólkurvörur, enga osta, ekkert með hvítu hveiti í o.s.frv. Tók til dæmis eftir því að eina kjötið sem hún má borða er kjöt af kven antilópu frá Suður Afríku. Eini fuglinn sem hún mátti borða með góðu var Geirfuglinn en hann er víst ekki til lengur. 

Íris mín spurði góðrar spurningar þegar ég sagði henni frá nýju matarÆÐI Önnu: Af hverju er hún að þessu ? Er henni illt einhvers staðar í líkamanum ? Hún lítur út eins og Hollywood stjarna og þarf ekkert á þessu að halda. Sem er náttúrulega hárrétt hjá Írisi.

Það verður því grillaður silungur í forrétt í kvöld og Anna fær soðinn Marhnút sem er eini fiskurinn sem hún má borða ...

 


Bloggfærslur 21. maí 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband