Biksvartur ömurlegur veruleikinn

Við okkur Íslendingum blasir hrollkaldur veruleikinn, sviðin jörð eftir nokkra gráðuga einstaklinga sem höfðu eingöngu Mammon að leiðarljósi og alla stjórnendur landsins sem höfðu heimsku strúta  að leiðarljósi. Og enginn ber ábyrgð, ekki einn maður hefur sagt af sér. Það er eins og þeir hafa kastað kjarnorkusprengju á landið okkar.

Þetta svo sem vitum við að hluta og ærin ástæða til að fyllast svartsýni.

Hins vegar er það bjartsýni sem við þurfum á að halda þessa dagana því það hjálpar alls ekki að sökkva sér í fenið.

Það er gríðarlega erfitt að vera bjartsýnn í dag vegna fjölmiðlanna því ekki er hægt að opna blað, hlusta á útvarp eða horfa á sjónvarp án þess að endalaus bölmóður fylli hlustirnar. Auðvitað er þetta veruleikinn, allir vita það, en fyrr má nú rota en dauðrota. Tökum dagsljós sem dæmi. Það er eins og Þórhallur og co leggi sig í líma við að fá á staðinn svartsýnustu einstaklinga sem til eru og er þeim ekkert heilagt í þeim efnum. Þau reyna alls staðar fyrir sér, hérlendis sem erlendis. Í hvert sinn sem maður horfir á dómsdagssvip og orð viðmælenda þeirra fýkur sá litli bjartsýnisvottur sem maður hafði byggt upp á haf út.

Hvernig getur það hjálpað Íslendingum að heyra endalaust frá ömurlegri framtíð þjóðarinnar ? Hvernig getur það hjálpað þeim sem geta ekki borgað reikningana sína, hafa ekki vinnu lengur o.s.frv. ?

Óréttætið í þjóðfélaginu er óendanlegt, það fer ekkert milli mála.

En, eina sem getur hjálpað þeim sem verst hafa orðið úti er bjartsýnin því með hana að vopni er í það minnsta auðveldara að lifa í gegnum þetta. Ef það er nú til örlítil vonarglæta í framtíðinni í hugum okkar held ég að það hljóti að hjálpa.

Það er allt betra en að feisa biksvartan ömurlegan veruleikann án vonar. Það er aðeins eitt sem getur hrakið myrkrið á brott og það er ljósið.

Ég er hættur að horfa á fréttir.


Bloggfærslur 15. janúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband