11.3.2009 | 16:23
Austurlenskt nudd
Ég er búinn að vera með doða í 3 puttum undanfarið og var ráðlagt að fara í nudd af heimilslækni. Nú ég fór í nudd á Kínverska náttúrulækningastofu á Hverfisgötunni og er algerlega agndofa eftir. líka í puttunum þremur.
Það byrjaði á því að kínverji tók á móti mér sem talaði nánast enga íslensku og enga ensku. Held reyndar að hann hafi verið ágætur í kínversku en hef ekki nógu mikla þekkingu til að skera úr um það. Svo kom " my boss " sem talaði aðeins betri íslensku. Nú ég var drifinn inn í herbergi og settur á grúfu á bekk með andlitið ofaní holu. Ég sá lappirnar á kínverjanum undan borðinu og sá þegar hann fór úr skónum og hvarf svo allt í einu. Næst finn ég þegar hann er kominn upp á bakið á mér og farinn að traðka á mér öllum hátt og lágt. Hann staldraði sérlega lengi ofaná þjóhnöppunum og það er óvíst að ég geti haft hægðir á næstunni. Síðan var ég nuddaður hátt og lágt, snúið við eins og kjúklingi með vissu millibili og klipinn hér og þar. Allan tímann spurði hann mig " hurt ? hurt ?" og ef ég hefði svarað því neitandi hefði ég verið dáinn. Síðan setti hann einhvern slöngivað á hökuna á mér og fór í reiptog við hausinn á mér og ég var skíthræddur um að hann myndi slíta hann af.
Allan tímann var hann svo að spyrja ( að ég held ) hvort doðinn í fingrunum væri ekki farinn en ég var ekki var við neina breytingu. Nú voru góð ráð dýr en þá var kallað á bossinn og hann tók mig hálstaki og reyndi af fremsta megni að slíta af mér hausinn. Það tókst sem betur fer ekki en ég heyri enn smellina í hálsinum. Ekki fór doðinn og þá fór hann og kom inn með fullt af nálum sem hann stakk í mig hér og þar í handlegginn og hætti ekki fyrr en ég æpti. Síðan " slappaði " ég af í 5 mínútur áður en ég mátti klæða mig.
Ég kom svo fram og hitti bossinn sem tjáði mér að ég þyrfti að koma tvisvar í viðbót því þetta tæki allt tíma. Fyrir þessa 3 tíma snaraði ég fram 27.000 krónum og ég ætla hreint að vona að hann hafi rétt fyrir sér með að þetta lagist smám saman. Ég á tíma aftur í fyrramálið og við sjáum hvað setur. Ég ætla að kíkja aðeins og kínversku orðabókin mína til öryggis í kvöld því mér fannst margt af því sem þeir sögðu sín á milli vera glettilega líkt " dauðans matur " eða " vonlaust case "
Læt ykkur fylgjast með og vona að þetta sé ekki mitt síðasta blogg ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.3.2009 | 14:59
Vorboðinn ?
Ég grillaði í fyrsta skipti í gærkveldi og drakk ískaldan bjór með. Með skjálfandi hendur skellti ég grillinu í gang einn tveir og bingó og grillaði svínakamb beinlausan. Æðislega gott og ég opnaði meira að segja rauðvín með sem hentaði einkar vel rauða nefinu.
Vorboðinn ? tja .....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)