16.4.2007 | 11:10
Helgin á brott er farin
Róleg og góð helgi er að baki, svo róleg að ég bloggaði ekki neitt. Eða eins og Arabinn í turninum orðaði þetta svo snilldarleg: Klukkan er 12 og allt er í lagi, klukkan er eitt og allt er í lagi, klukkan er þrjú og allt var svo mikið í lagi að ég sofnaði...
Var mættur á setningu landsfundar Samfylkingarinnar en var þar í hlutverki skemmtikrafts og söng með félögum mínum í Fóstbræðrum. Sérkennilegir þessir Landsfundir. Ræða formanns Samfylkingarinnar snerist mest um stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins og ræða formanns Sjálfstæðisflokksins snerist mest um stefnuskrá Samfylkingarinnar. Ég hélt að þetta ætti að vera öfugt en hlýta að ætla að ræða formanns Vinstri Grænna snúist að mestu um stefnu Frjálslynda Flokksins , ræða formanns Frjálslyndra mest um stefnu Vinstri Grænna... og formanns Framsóknarflokksins um Búkollu að venju....
Fór í Óperuna ásamt frúnni á laugardagskvöldið og sá þar Cavalleria Rusticana uppsett af Óperukór Hafnarfjarðar. Get nú ekki sagt að ég hafi verið imponeraður en var þó ánægðastur með vin minn Ólaf Kjartan. Kórinn var heldur slappur á köflum og leikurinn ekki til að hrópa húrra fyrir. Samt finnst mér nauðsynlegt að styrkja svona frábært framtak, til hamingju Elín Ósk og co !
Fór í brunch á sunnudag til Gunnar og Brynhildar en Gunnar er vinnufélagi Önnu. Þar var tekið á móti okkur með þvílíkum veisluföngum og yndislegu viðmóti. Vorum að fara til þeirra í fyrsta skiptið eftir að lítill prins kom í heiminn fyrir um 3 mánuðum síðan. Ekki var síðri móttakan hjá Pétri litla og systur hans henni Katrínu. Þau voru yndisleg og brosin þeirra verma mér enn um hjartarætur.
Bíð nú eftir flugi til Prag og búinn að bíða í 4 klukkutíma og á eftir að bíða í nokkra í viðbót. Flugvél bilaði hjá Heimsferðum og því þurfum við að bíða og bíða. Í staðinn fyrir að vera kominn til hinnar fögru borgar Budejovice um miðjan dag og hafa möguleika á að sötra góðan tékka af krana í 23°hita þá verðum við heppnir ef við náum þangað fyrir miðnætti í kvöld. Verðum sóttir á flugvöllinn í Prag af fyrrverandi rallý ökumanni og mér er strax farið að kvíða fyrir. Ef hann er á sama bíl og síðast þá sé ég örugglega enn farið eftir puttana mína á mæliborðinu en ég ætla á lymskufullan hátt að sjá til þess að Ásgeir sitjist fram í. Í það minnsta verð ég að vera búinn að slátra nokkrum áður en ég fer í bílinn !
Ekkert verður því bloggað næstu daga og bið ég því þá báða sem lesa bloggið mitt að hafa góðar stundir á Íslandi á meðan.
Gleðilegt sumar á fimmtudag !
Athugasemdir
Elsku brói, vonandi kemstu á endanum út og megi ferðin vera góð
. Við hér á klakanum munum að sjálfsögðu mæta í ullarnærfötunum innan klæða með húfuna, trefilinn og loðvettlingana í gönguna á sumardaginn fyrsta og standa síðar um daginn úti með bjór í hendi að grilla og reyna þannig að ná hita í kalda kroppinn
Vorum einmitt að kaupa nýtt grill um helgina!! Er nokkrum sinnum búin að lesa yfirskriftina á blogginu þínu í dag en er ekki alveg að ná henni
Ástarkveðjur frá okkur til þín. Skál í ferðinni, Elsa
Elsa sys (IP-tala skráð) 16.4.2007 kl. 13:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.