23.4.2007 | 09:06
Sólargeisli um miðja nótt
Á föstudaginn kom lillinn okkar hann Jökull í heimsókn og fékk að gista ( eins og hann segir það sjálfur ) hjá afa og ömmu. Hann var yndislegur að venju og talaði mikið um slysið sem hann lenti í. Þannig var mál með rentu að hann var í Bónus með mömmu sinni og að venju var vhann að fikta og höndin á honum flæktist í færibandinu undir búðarborðinu og dróst inn upp að olnboga. Færibandið stoppaði sjálfkrafa og það tók nokkra fullfríska karlmenn töluverðan tíma að losa hann meðan hann og ekki síður móðir hans öskruðu og grétu í takt við hvort annað enda hélt Íris að höndin á honum væri mölbrotin upp að olnboga. Það kom svo í ljós að hann hafði bara marist örlítið en vonandi lærði hann eitthvað af þessu.
Um miðja föstudags nóttina birti heldur í svefnherberginu hjá afa og ömmu enda var lítil stúfur með stírur í augum kominn og vildi fá að sofa hjá okkur. Hann fékk að koma í holuna hjá afa og þó afi svæfi lítið eftir það var það þess virði. Fórum með hann í heimsókn til Eddu langömmu á spítalanum og gladdi hana og aðra mikið þegar hann lá uppi í rúmi hjá langömmum og söng fyrir hana og aðra. Hann var bara yndislegur.
Árshátíð Vox Feminae var á laugardagskvöldið og fór fyrsti sópran á kostum enda var það sú rödd sem stóð að undirbúningi hátíðarinnar. Anna var glæsilegasta konan á svæðinu í nýja kjólnum sem hún keypti í Anas í Hafnarfirði, ótrúlega falleg. Fóstbræður komu og við sungun nokkra slagara fyrir gesti við góðar undirtektir. Fórum snemma heim enda orðin gömul. Við náðum nánast að hanga í leti fram eftir degi en það er afar sjaldgæft að ég nái að binda mína konu svo lengi niður. Grillaði minn fyrsta kjúlla þetta sumarið.
Athugasemdir
Jáhá þetta er sko vel heppnað barn :)
Annars erum við til í grillaðan kjúlla hvenær sem er blikk blikk
Íris (IP-tala skráð) 23.4.2007 kl. 23:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.