Tækjafrík

Seint verð ég talinn tækjafrík og oftar en ekki kvartar Anna yfir því. Hún vill reyndar að ég sé tækjafrík, tilbúinn með iðnaðarsvuntuna mína þegar á þarf að halda, skipuleggjari, söngvari, dansari skrúðgarðameistari og ,,,, jæja ég er sem sagt ekkert tækjarfrík. Sagir eru síðan þau tæki sem mér er minnst um gefið og ég lennti í einni slíkri í gærkveldi. sé alltaf fyrir mér myndina sem ég sá í smíði í skóla í gamla daga þar sem viðarbútur fór í gegnum einhvern þegar hann var að saga.

Ég fór til þessa að leggja flísar hjá Írisi dóttur minni og fékk lánaða flísasögina hans Óskars.  Skellti henni saman og setti vatn á þar til gerðan stað , mældi út og ætlaði svo að byrja að saga. Þá kom í ljós að sögin var of lítil að sjálfsögðu eða flísarnar of stórar, veit ekki alveg hvort var. Flísarnar voru reyndar í stærri kantinum, 30x80 cm og ég þurfti að reyna að saga fríhendis. Það þýddi að ég sagaði dálítið skakkt sem er alger banabiti fyrir meyju eins og mig sem vill hafa allt upp á millimeter. Við Andri þjösnuðumst þó til að leggja á hálft gólfið og ég kófsveittur yfir söguninni.  Við náðum að klára ca helminginn þegar sögin ákvað bara að hætta að saga, það var ekkert bit í sagarblaðinu eftir.  Að auki tók ég eftir að það átti eftir að ganga almennilega frá niðurfallinu undir vaskinum og því ekki hægt að sníða flísar meðfram því. Ekki svo að sögin hafi svo sem ráðið við slíkt en þetta segir mér dálítið til hvers iðnaðarmenn eru og hvað það getur reynst heppilegt að vera með þar til gerð tæki og tól sem passa.

Áður en ég klára þetta þá ætla ég að vera búinn að skoða flísasagirnar sem hægt er að leigja hjá Húsasmiðjunni og mæta með eina slíka. Hver veit nema ég kaupi mér bara eina iðnaðarsvuntu líka svona til að lúkka rétt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband