13.7.2007 | 08:57
Þvílíkur prins !
Fékk loksins að sjá litla prinsinn hennar Írisar, myndar drengur en óttalega sybbinn. Hann vill helst bara sofa og soga og nennir ekki að opna augun fyrir nýju veröldinni. En sætur var hann. Fórum með Jökul með okkur seinni partinn að hitta litla bró en hann var svo sem ekkert sérstaklega imponeraður yfir viðbótinni við fjölskylduna. Hann er kannski orðinn dálítið ruglaður á þessu enda ekki nema ca 3 vikur síðan hann eignaðist litla systir. Jökull fékk að sofa í Andra herbergi þannig að afi og amma fengu nokkuð rólega nótt. Að vísu vaknaði hann einu sini í nótt grátandi en afi fór með honum inn í rúm og svæfði hann. Jökull mundi ekkert eftir þessu í morgun.
Þvílík eindæma veðurblíða kallaði á ljósu jakkafötin í morgun og Jökull fór í stuttar buxur og við vorum ekkert smá flottir strákarnir þegar við mættum í leikskólann, held að fóstrurnar hafi sent okkur báðum aðdáunarauga. Jökull fékk þennan fína morgunmat en ég hef enn ekkert fengið ..
Síðasti vinnudagurin í dag áður en við förum í frí sem að vísu er ekki nema 1 vika. Ætlum að halda út á land, eitthvert sem nefið snýr og sólin er. Förum að öllum líkindum með Siggu og Sævari og Ingu og Hjálmari. Ætli við leggjum ekki í hann á sunnudag en þá verður Íris komin heim og búin að koma sér fyrir með lillann. Mig langar dálítið að fara á strandirnar eins langt og maður kemst og ganga svo þaðan í allar áttir. Kannski með litlu flugustöngina mína á bakpokanum prófandi sprænur og vötn á leiðinni. Þvílík sæla. Færandi björg í bú, grillandi silung á kvöldin eða búa til sasimi úr honum.
Ætlum að gista í tjaldinu okkar og því viðbúið að við verðum fyrir aðkasti þeirra sem eru með íbúðirnar með sér í eftirdragi. Ekkert mál, set bara upp mörke briller. Þeir spá góðu veðri hér á vestur hlutanum út vikuna þannig að því miður verða austfirðir að bíða betri tíma.
Ætlum að njóta helgarinnar með uppáhaldinu okkar, Jökli og fara í sund, húsdýragarðinn, fá okkur ís o.s.frv. Hann er bara æðislegur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.