23.7.2007 | 16:04
Sá gamli ?
Jæja, loksins kominn fyrir framan tölvu aftur. Var í fríi í síðustu viku og fór í ferðalag með Önnu og nýja tjaldið okkar. Lögðum af stað á laugardagskvöldið fyrir rúmri viku og enduðum á Arnarstapa á Snæfellsnesi, ægifögrum stað undir jöklinum hvar krafturinn yfirfyllti hvert skilningarvit. Hittum þar Siggu H, Sævar, Ingu klemmu og Hjálmar. Áttum þar yndislegar stundir í 2 nætur í sól og hita. Gengum á Hellnar með bjór í bakppoka og fengum okkur fiskisúpu og hvítvín í Fjöruhúsinu. Skoðuðum svo Malarrif á leiðinni í Grundarfjörð.
Grundarfjörður fær 5 stjörnur hjá mér, hvílik gestrisni sem við fundum fyrir. Anna fór í sjoppuna og spurði hvort þeir ættu frystikubba ú kistuna okkar til að skipta við okkur. Nei því miður sagði afgreiðslumaðurin en ég á heima í frystikistu og ég skal bara skreppa og ná í þá !! Sem hann og gerði. Fórum í sund og hittum þar eina gullfallega unga sundmær sem vildi allt fyrir okkur gera og sagði okkur ýmislegt um staðinn og nágrennið. Síðan sagði hún ásamt nokkrum pollum í pottinum okkur nákvæmlega hvernig við áttum að keyra til að finna falleg tjaldstæði í Berserkjahrauni.
Tjölduðum eina nótt í Berserkjahrauni og nutum lífsins þar en enduðum svo tjaldferðina með því að gista eina nótt á Laugum í Sælingsdal, ótrúlega fallegur staður. Á þessu mómenti vorum við gömlu orðin ansi þreitt í bakinu og einsýnt að við þolum ekki margar nætur á vindsæng í tjaldi. Þess vegna gistum við síðustu nóttina í smáhýsi í Fljótstungu í Borgarfirði. Fórum því fyrr heim en við ætluðum okkur og það fyrsta sem við gerðum þegar við komum heim seinni part fimmtudags var að fara að sjá nýja lillann okkar. Hélt það væri ekki hægt en hann var orðinn ennþá sætari
Hann er alger engill, sefur bara á milli þess að hann tottar brjóstið á mömmunni sinni
Fór í Þingvallavatn á sunnudag ásamt aðal veiðifélögum mínum, Steina og Guðbirni og veiddi þar nokkrar bleikjur í yndislegu veðri. Er svo að fara í Korpu ( Úlfarsá ) á miðvikudag og Stóru Laxá svæði IV á fimmtudag fram á laugardag. Er svo sem ekki með miklar væntingar enda árnar sérlega vatnslitlar og t.d. hafa ekki veiðst nema 3 laxar á svæði IV í Stóru Laxá og þeir voru allir innan við 4 pund ( Stóru hvað ? ) Menn segja að hún sé svo vatnslítil að stærri laxar strandi bara ef þeir reyna að synda upp ána.
Ef þið sjáið mig dansa undarlega út í garði næstu 2 daga er það allt í lagi, það er bara rigningar dansinn minn ....
Athugasemdir
Addi minn ertu ekki til í að hætta að dansa þetta tókst líka svona svakalega vel hjá þér :) Þvotturinn minn úti varð rennblautur ;)
kv Solla
Solla vinkona Írisar (IP-tala skráð) 23.7.2007 kl. 21:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.