30.7.2007 | 10:56
Enginn lax en falleg náttúra
Það var eins og við maninn mælt, enginn lax fékkst úr Stóru Laxá. Ég setti að vísu í einn og Birkir líka en misstum báðir. Það sem hins vegar stóð upp úr er hin ægifagra náttúra sem svæði 4 í Stóru Laxá skartar.
Mér leist að vísu ekki á blikuna þegar ég las það að ungur maður hefði hrapað í Laxárgljúfrum daginn áður en við áttum að fara þangað. Það var að vísu á efsta hluta svæðisins en þangað fara mjög fáir veiðimenn. Mér skilst að það sé a.m.k. 2ja tíma ganga þangað upp eftir og þá jafnvel sami tími til baka. Það var samt örugglega nóg gengið í þessari veiðiferð og ég held svei mér þá að ég hafi aldrei gengið jafn mikið í neinni veiðiferð. Upp og niður gil og gljúfur og jafnvel þurftum við að renna okkur niður í gil á kaðli með 2 stangir í hendi og tösku á baki. Ef ég hefði fengið lax á þessum stað hefði ég örugglega gefið honum líf eða skilið hann eftir. Ég var verulega þreittur eftir þennan veiðitúr.
Var með matarboð í gærkveldi, Tengdó, Andri Már, Íris, Jökull og lilli komu til okkar. Humarsúpa í forrétt og gamaldags lambalæri í aðalrétt. Ágætis matarboð í rólegri kantinum.
Annars var þetta að öðru leiti hörmuleg helgi, morð, sjálfsmorð, ofbeldi í Þórsmörk, banaslys og þar fram eftir götunum. Frétti svo að stór söngvarinn og bassinn Kristinn Halsson, Fóstbróðir með meiru hefði látist á laugardaginn. Blessuð sé minning þessa mikla Fóstbróðurs.
Dreymdi að venju í alla nótt um alls kyns vesen og hörmungar en það er bara þetta venjulega hjá mér, ég held að ég muni ekki eftir einni nótt sem ég dreymi ekki einhver heil ósköp. Verulega þreytandi til lengdar og ef einhver hefur einhverja lækningu við slíku þá endilega látið mig vita. Kannski er þetta blóðþrýstingslyfið Daren, heyrði einhvern tímann að það gæti haft slík áhrif og ætla að kanna það næstþegar ég heimsæki doktorinn minn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.