Lögreglan vakir yfir oss

Mikið líður mér vel vitandi það að nýi lögreglustjórinn með sinn her af lögregluþjónum vaki yfir hverju okkar fótmáli og grípi inní þegar verið er að fremja stór glæpi.  Sá veit líka hvað skiptir mestu máli og sá kann aldeilis að forgangsraða. Spásserar jafnvel sjálfur í nýfægðum leðurstígvélunum um miðborgina öðrum til varnaðar og eftirbreytni.

Nýlega lagði hann meginhluta hers síns í að stemma stigu við stórhættulegum glæp sem fellst í því að alls kyns glæpahyski hefur gert sér lítið fyrir og farið út að reykja með glösin með sér ! Sér hver heilvita maður að þetta er afar langt gengið og ógnar geð og líkamlegu heilbrigði heillar þjóðar. Nú skal herinn settur í það að stemma stigu við þessu og ef þetta fólk sem sækir staðina hættir ekki þessari stórhættulegu iðju þá skulu veitingamennirnir sem eiga staðinn aldeilsi súpa seiðið af því, fá háar fésektir, missa leyfið eða missa eitthvað þaðan af verra.  Það er náttúrulega veitingamanninum að kenna ef ég ákveð að fara út með glasið hans ..??

Það er hins vegar ekki talinn stórglæpur þegar verið er að lumbra á fólki innan eða utan við veitingastaði og ekki er það veitingamanninum að kenna. Varla verður hann beittur sektum eða missir leyfið við slíkt.

Það þykir ekkert tiltökumál þegar ung stúlka er dregin á hárinu fyrir utan einn veitingastað og bitið af henni eyrað enda ekki með glas í hönd sem hún stal af einhverju veitingahúsinu. Það þykir ekkert tiltökumál þó verið sé að lumbra á landsliði Íslands eða hluta þess í miðbænum enda held ég að Eiður eða gerandinn hafi hvorugur verið með bjórglas í hendi sem þeir stálu af einhverjum veitingamanninum.   

Nei, þá er nú betra að fylgjast með því í eftirlitsmyndavél í hlýjunni á varðstöðinni og ná því örugglega upp þegar verið er að lumbra á einhverjum heldur en að reyna að koma í veg fyrir það.

Annar stórhættulegur glæpur hefur einnig komið í ljós undanfarið og hinn helmingurinn af lögreglustóðinu fór í að leiðrétta en það er útkeyrslan á vörum í miðborginni. Það er með ólíkindum frekjan í búðar og veitingamönnum svo ekki sé talað um bílstjórum að ætla sér að fá að keyra út eftir hádegi í miðbænum. Nú skal hart tekið á þessum glæp og bílstjórarnir sjálfir sektaðir. Nú neita allir bílstjórar að keyra út vöru og ekkert verður því til sölu í miðbænum og það ætti nú aldeilis að laga umferðina þar.

Alltaf gott þegar menn kunna að forgangsraða, setjum bara dópsölu, ofbeldi og nauðganir á hilluna og hugsum um alvöru glæpina, útkeyrslu og útidrykkju í miðbænum .... 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband