17.8.2007 | 16:45
Austurstræti, ys og læti
Þá er búið að finna út úr því. Borgaryfirvöld í samvinnu við Lögreglustjórann okkar er búinn að uppgötva ástæðurnar fyrir því mikla ofbeldi sem er í miðbæ Reykjavíkur um helgar.
Snillingarnir frá Lögreglunni eru búnir að fatta það að það er veitingsstöðunum að kenna og engum öðrum. Hvernig það getur verið þeim að kenna er mér að vísu hulin ráðgáta en hei, ég er nú bara svona meðalgreindur og varla það. Það er því lausnin að loka skemmtistöðum mun fyrr og það hlítur að verða þess valdandi að ekkert ofbeldi verður í miðbænum og ekkert fólk heldur. Það er bara líklegast að allir hætti að skemmta sér í kjölfarið og unga fólkið hætti að hafa áhuga á að vera að djamma langt fram eftir. Þvílíkt snjallræði hjá Lögregulstjóranum að sjá þetta fyrir, auðvitað er þetta bara skemmtistöðunum að kenna.
Annar snillingur hefur að vísu líka aðra skoðun á þessu vandamáli og heldur því fram að ástæðan fyrir þessu eilífa fylliríi sé Vínbúðin í Austurstræti svo ekki sé talað um þessa frábæru þjónustu sem þeir veita þar. Það hefur jafnvel heyrst að starfsfólkið í vínbúðinni sé að leiðbeina fólki um val á vínum og sendi kúnnanum jafnvel bros þegar vel liggur á því. Þetta er náttúrulega stór hættulegt og getur auðveldlega aukið drykkju í miðbænum um helgar. Því segir borgarstjóri vor, ef þessari búð verður ekki lokað þarf í það minnsta að minnka þjónustulundina hjá starfsfólkinu. Bannað verði að tala og brosa og ekki verra ef starfsfólkið verðir með hundshaus og fúlt orðabragð inn á milli. Nú er maður loksins farinn að skilja af hverju sjálfstæðismenn geymdu Villa í borgarstjórastólinn þangað til síðast, hann átti að vera svona rúsínan í pylsuendanum....
Var að borða súpu í hádeginu í gær í bakaríi og las moggann á meðan. Sá mér til skelfingar að einn af mínum betri vinum á menntaskólaárunum var látinn, rúmlega fimmtugur. Guðmundur Hafberg var hugsa ég sá einstaklingur sem ég bar hvað mest virðingu fyrir í þá daga, persónuleikinn var slíkur að hann skar sig úr. Ég fór í jarðarförina í dag og fékk staðfestingu á því að hann hafði hvarvetna skilið eftir sig góð meðmæli og verið allra manna hugljúfi. Blessuð sé minning hans og guð vaki yfir ástvinum hans á þessari sorgarstundu.
Þetta sýnir manni æ betur að það borgar sig ekki að bíða þangað til seinna að lifa lífinu. Enginn veit sína ævi alla og það er nákvæmlega núna sem við eigum að njóta þess.
Á morgun er menningardagurinn og þá verða allir að njóta lífsins. Ég verða að vísu fjarri góðu gamni frá hálf tvö til ca 7 um kvöldið þar sem ég er að syngja í Austurstræti fyrir Glitnir og síðan í 2 brúðkaupum og jafnmörgum veislum.
Njótum lífsins !
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.