Skuggavaldur

Fyrir langa löngu var uppi maður sem bar það sérkennilega nafn Skuggavaldur. Maður þessi var æðsti maður Skuggaráðsins svokallaða og hvar sem hann fór tóku allir eftir honum því honum fylgdu alltaf 6 skuggar. Venjulegir menn eiga sér aðeins 1 skugga en þessi maður átti sér 6 skugga sem alltaf lúrðu bak við hann tilbúnir að elta allar hans hreyfingar, sama hverjar þær voru. Það komst ekki hnífur á mili þeirra. Þannig eiga enda skuggar að haga sér.

Rétta nafn mannsins var reyndar Milli og dró ekki nafn sitt af ríkidæmi hans heldur hversu margar sögur hann gat sagt og ekki síður hversu mörg svör hann hafði á reiðum höndum, oft á tíðum mjög reiðum höndum.  Það kom enginn að tómum kofunum hjá þessum manni nema hugsanlegum nokkrum gömlum og ónýtum kofum. Skuggavaldur bar undarlega kórónu sem einungis hinir útvöldu gátu séð. Fyrir almúgann leit þetta hins vegar út eins og hrafnahreiður ofan á höfði mannsins og kom kuldahrolli í hvern þann sem það leit.

Þeir sem dirfðust að vera á móti Skuggavaldri féllu með það sama, í skuggann af manninum. Þeir sáust þá aldrei framar.

Einn var þó sá maður sem þorði að bjóða Skuggavaldri byrginn. Þessi maður var kallaður heilarinn og hvar sem hann fór birti upp og skugginn sem fylgdi hinum illu hvarf eins og dögg fyrir sólu við ásjónu hans. Ásjóna hans þótti ,nóta bene, einkar falleg og hafði mikil áhrif á vinsældir hans.  Þessi maður stóð einn daginn upp og með orðin ein að vopni skoraði hann Skuggabaldur á hólm. Skuggabaldur reyndi að bregða fyrir sig alls kyns sögum, hann reynda að bregða fyrir sig alls kyns svörum, hann reyndi jafnvel að bregða fyrir sig 6 skuggunum sínum en allt kom fyrir ekki. Hann reyndi að endingu að leita til véfréttarinnar miklu og hárprúðu til að fá ráð en hún var bara eins og gömul  slitin plata spilandi gömlu lummurnar.

Að endingu féll hann fyrir munni Heilarans og í einu vetfangi hvarf skugginn sem hvílt hafði yfir öllu. Í stað skuggans kom ljósið, í stað dimmrar næturinnar rann upp nýr og betri Dagur. Bjartur Dagur sem skuggarnir höfðu í heimsku sinni búið til. Dagur framtíðar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband