8.5.2008 | 12:36
Blikur á lofti
Mér líður ótrúlega vel þessa dagana og finn fyrir sömu öryggis tilfinningu og konur sem nota Always Ultra, að ég held. Ástæðan er augljós, nú þarf ég ekki lengur að búa yfir stöðugum áhyggjum af því að eitthvað hræðilegt steypist yfir mig úr himinhvolfunum. Ég þarf ekki lengur að hafa áhyggjur af því að ótíndir glæpamenn eins og Rússverjar, Þjóðverjar, Pólverjar, Geimverjar, Gnúpverjar eða aðrir verjar ráðist að mér óvörum úr lofthelginni. Vinkona mín hún Ingibjörg Sólrún hefur séð fyrir því að næstu nokkrar vikurnar munu Fransmenn fljúga um loftin blá á hljóðfráum herþotum sínum og stugga frá alls kyns lýð og mega nú jafnvel farfuglarnir fara að vara sig.
Þetta var snilldarbragð frá hendi Ingibjargar því eftir að Bandaríkjamenn fóru höfum við verið algerlega varnarlaus og liðið hreint eins og í helvíti. Það gefur auga leiða að við þurftum virkilega á því að halda að hinir fallegu og tungulipru Fransmenn kæmu okkur til hjálpar jafnvel þótt það sé aðeins nokkrar vikur á ári og óþjóðalýðurin getir vaðið uppi í lofthelginni hinar vikurnar, jafnvel þótt það kosti okkur 120 miljónir og sumir segja að þetta sé ódýrasta sumarfrí sem nokkur hermaður hefur fengið. Jafnvel þótt við gætum notað þessar milljónir í sjúkrahúsin, fyrir foreldra langveikra barna eða fyrir foreldra unglinga í vímuefnum sem eiga í engin hús að venda.
Snilldarhugmynd, jafnvel þótt það sé hlegið að okkur sitt hvorum megin Atlandsála.
Ég er þess fullviss að þegar þessir hernaðar snillingar hafa lokið sér af þá sjást ekki lengur kríur og mávar, hvað þá blikur á lofti yfir höfðum okkar.
Allt í nafni friðar og réttlætis.
Athugasemdir
Ég skynja kaldhæðni í þessum skrifum þínum
Andri einkasonur (IP-tala skráð) 8.5.2008 kl. 17:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.