Framhalds framhalds ferðasaga

Við létum nú svo sem ekki deigan síga þegar heim var komið því strax daginn eftir að við komum heim, á sunnudeginum fórum við að heimsækja Ingu Klemmu og Hjálmar í bústað í Efsta Dal og gistum þar í blíðskaparveðri eina nótt.

Viorum svo heima 1 dag og fórum svo af stað í tjaldferðalag hringinn um landið með Steina, siggu H, Ingu Klemmu og Hjálmari. Lögðum af stað á þriðjudagskvöldið og héldum norður til Akureyrar. gistum þar í fínni íbúð sem Blaðamannfélagið á í 2 nætur. Við strákarnir fórum að veiða á miðvikudeginum í Ljósavatn meðan stelpurnar spókuðu sig á Akureyri. Fengum nokkra titti sem dugðu í sashimi um kvöldið.

Héldum svo austur á bóginn á fimmtudeginum og stoppuðum í jarðböðunum við Mývatn. Þetta er glæsilegur staður og þeim mývetningum til sóma. Glampandi sól var og þvílíkt útsýni ! Héldum svo áfram á Egilstaði þar sem við ætluðum að tjalda í Atlavík.  En stundum fara hlutirnir ekki alveg eins og maður vill því á leiðinni var okkur öllum boðið í mat hjá Rannveigu vinkonu stelpnanna á Egilsstöðum. Hún er nýflutt inn í glæsilegt parhús og búin að innrétta það mjög fallega. Það var náttúrulega bjór og rauðvín og 25 mínútna akstur inn í Atlavík þannig að við urðum að gista hjá henni. Andri kom til okkar þá um kvöldið en hann býr á Egilstöðum þessa stundina og tjáði okkur að okkur væri boðið í mat hjá tengdó ( kærastan hans hún Erla er frá Egilsstöðum ) kvöldið eftir. Sem þýddi náttúrulega meiri bjór og rauðvín og enn var 25 mín akstur inn í Atlavík þannig að enn var gist hjá Rannveigu á Egilsstöðum. Sem betur fer er hún ótrúlega gestrisin manneskja. Þá var kominn laugardagur og tjaldið góða enn óhreift í bílnum. Keyrðum heim á leið og gistum á Hótel Klaustri hjá Kalla vini mínum sem reyndist okkur betri en enginn þar sem mjög erfitt var að fá gistingu. Það hellirigndi nótabene þannig að tjaldið fékk að hvíla sig áfram.

Skemmst frá því að segja að við komum heim á sunnudegi úr tjaldferðalaginu án þess að taka upp tjaldið. Fúlt.  Ég var búinn að sjá fyrir mér að sitja fyrir utan tjaldið með tjaldborðið og tjaldstólana, grilla á kolum, skvetta aðeins í sig og fara í frisbí.

En , stundum fara hlutirnir ekki alveg eins og maður ætlar eða vill.

Allt hefur þó sinn gang og við kynntumst vel henni Rannveigu sem fór með okkur eins og hvítvoðunga og stjanaði við okkur. Við hittum í fyrsta sinn foreldra Erlu þau Grétar og Völu og nutum einstakrar gestrisni þeirra í mat og drykk. Það var því verulega gaman að dvelja á Egilsstöðum og kynnast nýju fólki.

Við tjöldum bara seinna en þó ekki næstu helgi því þá er útskriftarveisla hjá Írisi minni. Hörku fjör !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heiðar Birnir

Ég segi nú bara að eins gott að tjaldið var með.

Heiðar Birnir, 15.7.2008 kl. 15:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband