25.7.2008 | 12:27
Veðurfræðingar
Veðurfræðingar eru sérkennileg fyrirbrigði og ég er nánast öruggur á að enginn veðurfræðingur hafi nokkurn tímann unnið í lóttói ! Oft á tíðum eru veðurfréttir kynntar af afar sérkennilegu fólki sem hoppar og dansar fyrir framan skjáinn, reitandi af sér brandarana náttúrulega eingöngu til þess að slá ryki í augu fólks. Svo fólkið taki ekki eftir því hvað þeir eru að spá. Nærtækasta dæmið á íslandi er Siggi Stormur sem leggur orðið meira upp úr leikrænum tjáningum en veðurspám. Yrði ekki hissa þó hann væri kominn í framboð fyrir einhvern flokkinn fyrr en varir.
Um síðustu helgi ákváðum við hópur af fólki að skella okkur í Þórsmörk og tjalda í Básum. Fylgdumst því grannt með veðurspánni og það var eins og við manninn mælt. Alla vikuna spáð rigningu í Þórsmörk um helgina. Þegar ég svo skoða veðurspána í morgun þá allt í einu er farið að spá þvílíku blískaparveðri í Þórsmörk að það hálfa væri nóg. Sumir hópnum voru að sjálfsögðu komin með annað plan og því verður ekkert farið í Þórsmörk.
Við ætlum hins vegar að fara nokkur saman á Snæfellsnesi sem er í senn áhættusamt og fíflalegt því veðurfræðingar spá þar góðu veðri um helgina. Við tökum sjénsinn og erum að leita að góðu kósí tjaldstæði þar sem ekki er allt of mikið af fullu fólki með húsin sín með sér.
Þessi spádóms "gáfa" veðurfræðinga er svo sem ekki sér íslenskt fyrirbrigði því ég hef dvalið við Gardavatn á Ítalíu í sól og blíðu í nokkra daga þegar veðurkortið sagði okkur að það væri í raun rigning ! Þeir geta ekki einu sinni spáð um veðrið eins og það er núna !
Hvað sem líður, þá get ég ekki beðið eftir að koma á einhvern yndislegan áfangastað í kvöld, opna einn bjór og fara að setja upp tjaldið. Grilla svo á kolagrilli gott lamb, setja upp borð og stóla, opna rauðvín .....ummm.
Góða helgi.
Athugasemdir
Var það ekki veðurfræðingur sem sagði eitt sinn ,, það er erfitt að spá, en þó sérstaklega um framtíðina".
Steinmar (IP-tala skráð) 25.7.2008 kl. 12:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.