5.8.2008 | 10:15
Helgin laaaanga
Ótrúlega löng helgi að baki, svo löng að ég man svei mér ekki hvað ég var að gera á föstudaginn. Eitthvað hlít ég samt að hafa hitt Ingu, Hjálmar og Siggu H því daginn eftir á laugardeginum vorum við búin að ákveð að ganga á Keili.
Þegar upp var staðið fórum við bara 3 saman þ.e. Ég, Anna og Inga. Hin fundu sér einhverjar afsakanir ..
Það var ótrúlega gaman að ganga á Keili því ég var búinn að heyra ýmsar sögur um það. Leiðin þangað var að vísu erfið bílnum mínum og illa merkt en ég komst þó að lokum á leiðarenda. Fyrst var töluverð ganga gegnum úfið hraunið sem mér fannst skemmtilegt og síðan á brattan og engan smá bratta. Töluverð lausamöl var á leiðinni en ferðin gekk vel hjá okkur öllum. Skrifuðum í gestabókina þegar á toppinn var komið. Það var mjög gaman að fara niður enda leyfði ég mér að valhoppa hálfa leiðina niður. Ég er enn með harðsperrur í framanverðum lærunum eftir þessa göngu og ótrúlegt en satt, hvorki Anna né Inga fengu harðsperrur. Ég er búinn að vera velta þessu fyrir mér fram og til baka enda karlmennsku ímynd mín beðið mikla hnekki. Í morgun í heita pottinum fattaði ég ástæðuna, þetta liggur í augum uppi. Þær vinkonur eru vanar að ganga um á háhæluðum skóm sem er sama stelling fyrir fótinn eins og þú sért að ganga niður fjall. Þær voru sem sagt vanar. Hjúkk, ég er kannski ekki aumingi eftir allt
Keyptum í matinn á heimleiðinni og slógum upp þvílíkri grill, palla/heitapotts veislu og Hjálmar og Sigga fengu að vera með þó þau hafi ekki gengið á Keili ... Steini kom líka beint úr veiðitúrnum í Vatnsdalsánni ( sem ég átti að vera í ) og upphófst nú mikið fjör. Það var dansað tjúttað og tætt. Það var sungið og mat á sig bætt. Það var drukkið og síðan farið í partí til Mæju og Nonna í Hafnarfirðinum. Þetta var bara alveg eins og í gamla daga ...
Svo reis upp sunnudagur skír og fagur og við fórum í göngutúr. Til Ingu og Hjálmars til að sækja bílinn og fjaðrirnar sem við höfðum reytt af okkur. Fórum svo og keyptum í matinn og síðan heim að þrífa örlítið og undirbúa svo matarboð sem við vorum með um kvöldið. Fengum Völu og Sigga vini okkar með og ég var með kjúklingabringur fylltar með mozarella og parmaskinku sem ég velti upp úr eggi, hveiti og raspi. Í forrétt var laxakaka sem ég fékk hjá Ingu vinkonu minni. Eftirrétturinn var síðan ferskju-súkkulaðikaka a la Nigella og Anna gella. Þessu öllu var skolað niður með Amayna Sauvignon Blanc, Chanson Pinot Noir og sætvíni. Drukkum frábæran fordrykk, Billecart-Salmon Brut Rosé kampavín.
Síðan kom mánudagur og það var ákveðið strax að þetta yrði áfengislaus dagur. Sóttum lillana okkar til Írisar og fórum í heimsókn til Völu og Sigga en þau voru að flytja í gamalt hús í Hafnarfirði sem þau eru búin að vera gera upp undanfarið. Glæsilegt hús og garðurinn, mæ ó mæ. Það lá við að við þyrftum sveðju til að komast í gegnum hann. Þvílíkur gróður og ýmislegt sem ég hafði aldrei séð áður og hélt að yxi bara í Afríku. Hefði ekki orðið hissa þó ég hefði séð gíraffa bregða þar fyrir ..
Fórum svo í mat til Írisar og Óskars, ljúffengt grillað kindafillet með öllu tilheyrandi. Sódavatn með sem betur fer.
Að öðru leiti var þetta bara róleg helgi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.