10.11.2008 | 12:29
Kiri Te Kanawa
Ég varð fyrri ótrúlegri reynslu í gær. Við Anna fórum ásamt Völu vinkonu okkar á nemendatónleika í Söngskólanum. Um var að ræða nemendur sem höfðu verið í matserclass námskeiði hjá engri annari en Kiri Te Kanawa, flottustu núlifandi sópran í heiminum. Það var unun að heyra í þessu unga fólki og sérstakega var það ungur bassi, Andri Róbertsson minnir mig að hann heiti, sem heillaði okkur. Þvílíkt efni þar á ferð.
Þessi ótrúlega reynsla kom hins vegar úr annari átt eða frá Nýja Sjálandi því eftir að hafa flutt smá ræðu vippaði drottningin sér úr jakkanum og söng fyrir okkur eitt lag. Lagið var að ég held "O quante volte" úr I Capuleti e i Montecchi og þvílík rödd ! Maður tók ekki eftir að hún væri byrjuð að syngja þegar salurinn hreinleg fylltist af tónum og tónarnir flæddu úr barka hennar eins og neðanjarðarlest á fullum hraða. Lá við að ég fengi hellu á tímabili og var kominn með hausverk um kvöldið. Allt gert án átaka, algerlega áreynslulaust. Ég var á öðrum bekk einungis steinsnar frá henni og reyndi án afláts að blikka hana (þrátt fyrir að Anna væri við hliðina á mér ) en hún tók ekki eftir neinu heldur var algerlega í öðrum heimi þegar hún söng. Ég er enn með hausverk núna og ég veit hreinlega ekki hvort það sé út af þessum söng ...
Fórum svo um kvöldið að hlusta á kennarann minn hann Hlöðver Sigurðsson í óperunni þar sem hann söng allan ljóðabálk Schuberts, Fallega malarastúlkan. Fallegur og áreynslulaus söngur hjá lærimeistara mínum og örugglega ekki það auðveldasta sem tenórar syngja.
Annars ætluðum við líka á tónleika á laugardagskvöldið, hlusta á KK á Café Rosenberg en Anna var ekki búin að vera heima eitt kvöld alla vikuna og því ákváðum við að vera heima. Sem betur fer því vorum nánast sofnuð milli 10 og 11 um kvöldið ... Maður verður jú að kunna fótum sínum forráð.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.