Ég mótmæli

Ég fór í fyrsta sinn á Austurvöll og tók þátt í mótmælunum um miðjan dag í gær. Þau fóru vel fram, menn lömdu trumbur í takt við kröfur sínar og þannig eiga mótmæli að vera. Svo fór allt úr böndunum að venju og keyrði fram úr hófi um kvöldið.

Ég þoli ekki að horfa á hálfvita sem notfæra sér þetta ástand, berjandi með sleifum í höfuð lögreglumanna, kastandi sér á skildina og skvettandi mjólk og alls kyns ógeði á þá. Reynandi allt til að espa þá upp og skilja svo alls ekki að lögreglan skuli svara á móti. Þarna eru vafalítið að verki fólk sem elskar ofbeldi og spennuna sem fylgir því og elta uppi slík mótmæli. Atvinnumenn.

Svo eru mótmælendur eins og Hallgrímur Helgason sem mætir og mótmælir á sinn faglega hátt en skilur afstöðu lögreglunnar. Það eru hins vegar hinir vondu sem fá mesta umfjöllunina að vanda.

Lögreglumenn eiga alla mína samúð og það má ekki gleyma því að þetta er fólk eins og ég og þú með mismunandi skapgerð og þar eins og annars staðar er innan um misjafn sauður. Flestir eru þeir þó vafalítið hræddir og flestir eru örugglega á okkar bandi þ.e. vilja mótmæla þessu ástandi sem núverandi stjórn hefur komið okkur ÖLLUM í. 

Ég horfði á fréttir af mótmælunum fyrir utan Þjóðleikhúsið í gærkveldi og gat ekki anað séð en að fólk skemmti sér konunglega, flestir voru hlægjandi, syngjandi og dansandi og einhvern veginn fékk ég á tilfinninguna að þetta hefði ekkert með mótmæli gegn stjórninni að gera. frekar svona carnival stemning. Helmingur þátttakenda voru svo ungir krakkar sem hefðu átt að vera farnir heim til sín fyrir löngu.

Og svo spyrja fréttamenn ráðamenn hvort þeir ætli ekki að svara kalli þessa fólks ...

Auðvitað á stjórnin að segja af sér og auðvitað á að henda stjórnendum Seðlabanka og Fjármálaeftirlits út í ystu myrkur.  Það er krafa fólksins.

En það hefur ekkert með vitleysinga sem fara hamförum gegn lögreglunni að gera. Það hefur ekkert með það að gera að unglingar flykkjast í bæinn til að skemmta sér í látunum.

Það hefur eingöngu með réttlæti að gera.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heiðar Birnir

Algjörlega sammála þér.  Það væri nær að foreldrar þessara krakka mættu niður á Austurvöll með potta og pönnur til að slá saman, og senda þessa krakka skammir í rúmið. 

En þetta er allt að hafast.  Stjórnin er að leysast upp.  Gefum þessu örfáa daga til viðbótar.

Heiðar Birnir, 22.1.2009 kl. 13:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband