9.3.2009 | 12:37
Norðurferðin
Við komumst heim við illan leik í gær úr annars frábærri norðurferð.
Við byrjuðum á Sauðárkróki á fimmtudag og vorum við opnun á Frístundarhúsinu sem búið er að vera draumur Maríu í langan tíma. Langþráður draumur orðinn að veruleika og Sauðárkrókur búinn að staðsetja sig sem frumherja í því að efla samskipti fjölskyldu og mismunandi aldurshópa. Til hamingju með þetta María og Sauðárkókur. Vorum svo í góðu yfirlæti hjá Maríu og Ómari að venju.
Á föstudag fórum við svo norður til Akureyrar því aðal tilgangur þessarar ferðar var að syngja í brúðkaupi hjá dóttur vina okkar, þeim Gunni og Steingrími. Það var eins og við manninn mælt þegar þau eru annars vegar, það var höfðinglega tekið á móti okkur. Fengum lánaða fallega íbúð á meðan dvöl okkar stóð og eftir okkur beið freiðivín, ávextir og falleg handklæði á rúmum sem búið var að bródera með nafni okkar beggja. Gunnur er einstök kona.
Nú, okkur var boðið út að borða á Rub 23 á föstudagskvöldið þar sem við áttum notalega stund og daginn eftir var byrjað að snjóa. Það snjóaði svo og snjóaði allan daginn og ég var farinn að óttast að við kæmumst ekki til baka fyrr en með vorinu ... Örugglega meters nýfallinn snjór.
Jæja, við fórum svo á æfingu með organistanum en við sungum í Akureyrarkirkju hvorki meira né minna. Organistinn var reyndar úr Glerárkirkju. María kom svo til Akueryrar þannig að þær vinkonur fengum smá tíma saman.
Við sungum svo í brúðkaupinu í kirkjunni og það gekk afar vel. María Björk og Ingvi pabbi hennar komu og hlustuðu á okkur. Sungum sálm, Sól Rís og Jörð, allt í 2 röddum. Síðan var brúðkaupsveislan í Ketilshúsi og þvílík veisla ! Glæsileg brúðhjón þau Hulda og Þórir, glæsilegir foreldrar og ekki síst, glæsilegur veislustjóri hann Vignir. Það hélt áfram að snjóa allan tímann ...vorum komin heim um kl. 2 um nóttina.
Daginn eftir var útlitið sérlega slæmt, sást varla út fyrir snjóbyl og fjúki en við ákváðum samt að láta slag standa og leggja í hann suður. ( fékk meira að segja Önnu til að samþykkja það, hún var reyndar ótrúlega róleg allan tímann )
Stærsta hluta ferðarinnar var mjög blint og hált og sér í lagi á Holltavöruheiði þar sem maður rétt sá í næstu stiku. Við komumst hins vegar heil á höldnu heim eftir ævintýralegan og umfram allt skemmtilegan túr. Þessi fjölskylda öll sem við vorum að syngja fyrir er algerlega sér á parti. Ótrúlega flott
Vorum frekar þreytt í gærkveldi og sofnuðum " frekar " snemma
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.