11.3.2009 | 16:23
Austurlenskt nudd
Ég er búinn að vera með doða í 3 puttum undanfarið og var ráðlagt að fara í nudd af heimilslækni. Nú ég fór í nudd á Kínverska náttúrulækningastofu á Hverfisgötunni og er algerlega agndofa eftir. líka í puttunum þremur.
Það byrjaði á því að kínverji tók á móti mér sem talaði nánast enga íslensku og enga ensku. Held reyndar að hann hafi verið ágætur í kínversku en hef ekki nógu mikla þekkingu til að skera úr um það. Svo kom " my boss " sem talaði aðeins betri íslensku. Nú ég var drifinn inn í herbergi og settur á grúfu á bekk með andlitið ofaní holu. Ég sá lappirnar á kínverjanum undan borðinu og sá þegar hann fór úr skónum og hvarf svo allt í einu. Næst finn ég þegar hann er kominn upp á bakið á mér og farinn að traðka á mér öllum hátt og lágt. Hann staldraði sérlega lengi ofaná þjóhnöppunum og það er óvíst að ég geti haft hægðir á næstunni. Síðan var ég nuddaður hátt og lágt, snúið við eins og kjúklingi með vissu millibili og klipinn hér og þar. Allan tímann spurði hann mig " hurt ? hurt ?" og ef ég hefði svarað því neitandi hefði ég verið dáinn. Síðan setti hann einhvern slöngivað á hökuna á mér og fór í reiptog við hausinn á mér og ég var skíthræddur um að hann myndi slíta hann af.
Allan tímann var hann svo að spyrja ( að ég held ) hvort doðinn í fingrunum væri ekki farinn en ég var ekki var við neina breytingu. Nú voru góð ráð dýr en þá var kallað á bossinn og hann tók mig hálstaki og reyndi af fremsta megni að slíta af mér hausinn. Það tókst sem betur fer ekki en ég heyri enn smellina í hálsinum. Ekki fór doðinn og þá fór hann og kom inn með fullt af nálum sem hann stakk í mig hér og þar í handlegginn og hætti ekki fyrr en ég æpti. Síðan " slappaði " ég af í 5 mínútur áður en ég mátti klæða mig.
Ég kom svo fram og hitti bossinn sem tjáði mér að ég þyrfti að koma tvisvar í viðbót því þetta tæki allt tíma. Fyrir þessa 3 tíma snaraði ég fram 27.000 krónum og ég ætla hreint að vona að hann hafi rétt fyrir sér með að þetta lagist smám saman. Ég á tíma aftur í fyrramálið og við sjáum hvað setur. Ég ætla að kíkja aðeins og kínversku orðabókin mína til öryggis í kvöld því mér fannst margt af því sem þeir sögðu sín á milli vera glettilega líkt " dauðans matur " eða " vonlaust case "
Læt ykkur fylgjast með og vona að þetta sé ekki mitt síðasta blogg ...
Athugasemdir
Hehe
Já kínverjarnir eru snillingar í að láta mann þurfa að koma aftur hef lent í þessum elskum.. en veistu þetta virkar... losnaði við alla vöðvabólgu og alles... svo ég segi því bara"öfund" þyrfti svo að komast í almennilegt kínverskt nudd hehe...
knús og kram frá kópavoginum
Kristín frænka (IP-tala skráð) 11.3.2009 kl. 19:55
Heheh..já það þarf ekki alltaf að vera neikvætt að láta ganga yfir sig !! Vonandi að þetta gefi bata - ótrúlega misjafnar sögur af þessu kínanuddi en hún Joom er víst líka rosa góð og er farin að nudda aftur hér í bænum... En eitthvað er nú alltaf líkt með okkur elsku bró því ég er búin að vera með svona doða í tveimur fingrum hægri handar sem leiðir niður í þumalinn !?!?
Ertu nokkuð að kaffæra þig í ritgerðarskrifum sem hafa svona áhrif...p.s. eigum við að reyna að finna dags í mars fyrir systkinasukk eða geymist það fram í maí
Elsa sys (IP-tala skráð) 12.3.2009 kl. 12:37
Sæll frændi.
Varaðu þig aðeins á þessum aðferðum kínverjans, ég er ekki að segja að ég hafi rétt fyrir mér en ég lenti í þessu með dofann í fingrum í fyrrasumar og fór síðan að fá verk í framhandlegginn. Fór til læknis sem talaði um að þetta gæti verið klemmd taug. Hitti síðan annan sérfræðing sem sendi mig hið snarasta í myndatöku og viti menn fram kom brjósklos í hálsi á tveimur stöðum ásamt sliti. Ég aftók það að fara í agðerð en var hjá ísl. sjúkraþjálfara í togi, nálastungum og laser. Ég náði mér ótrúlega vel en verð ennþá vör við dofa í fingrum en er verkjalaus;-)
Elín frænka
p.s. kíki alltaf á bloggið þitt hí hí
Elín Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 12.3.2009 kl. 13:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.