Stjórnmálafræðingurinn

Ég er með útlendinga frá Heineken þessa dagana og enginn til að blogg. Verð samt að segja frá því að snillingurin hún Íris dóttir mín náði öllum prófunum ( 20 einingar ) og er því orðinn Stjórnmálafræðingur. Til hamingju Íris mín.

Með málverk

Við munum taka forstofuna í gegn um helgina en það er það eina sem á eftir að gera í húsinu. Mála, kasta út gamla skápnum og setja upp nýjan sem við eigum eftir að kaupa. Er einhver þarna úti sem getur notað ágætan fataskáp fyrir ekkert ? Bara að sækja hann. Ég verð örugglega kominn með málverk eftir þetta.

Í kvöld er Anna að fara í stelpuboð í vinnunni sinni og Steini ætlar að koma í heimsókn. Við ætlum að elda góðan mat og drekka góð vín saman og spjalla um útsölur og nýju skólínuna.  Ég verð örugglega kominn með málverk eftir allt það tal. Veit ekki alveg hvað verður í aðalrétt en risotto með villisveppum verður að öllum líkindum í forrétt.

Og talandi um málverk, Gugga er með rýmingarsölu á eitthvað af málverkunum sínum á morgun eða eins og hér segir í fréttatilkynniningu:

 

Heil og sæl og gleðilegt sumar

 

Þar sem ég er að flytja núverandi vinnustofu mína frá Korpúlfsstöðum, verð ég með opið hús, föstudaginn 23. maí kl 18-20 og laugardaginn 24. maí kl 13-17.

Nýjustu verkin verða til sýnis og sölu en eldri verkin verða seld á nokkurs

konar rýmingarverði.

Léttar veitingar og endilega takið gesti með,

 

Gugga

Gugga er móðir Írisar dóttur minnar fyrir þá sem ekki vita Wink

Góða helgi.


Fjölskylduveislan

Fengum öll börnin okkar í mat í gærkveldi, Írisi, Óskar, Jökul, Úlfar,,Andra og Erlu. Við áttum yndislega stund saman og strákarnir litlu voru æðislegir.

Ég pönnusteikti nokkur urriðaflök sem ég veiddi í fyrradag og þau voru æðisleg. Bjó til kalda agúrkusósu úr creme fraische með og allir voru sérlega ánægðir. Var svo með þurrkryddað lambalæri í ofni og ég held að allir hafi verið mjög sáttir með matinn. Dr.Loosen Wehlener Sonnenuhr hvítvín með forréttinum og Norton Cabernet Sauvignon Reserve rauðvín með aðalréttinum. Bara svona smá smakk með.

Anna borðaði þetta allt líka Wink

Ræktin í morgun og ég verð að segja að mig langaði bara að sofa áfram. Nú, hins vegar, líður mér mér æðislega eftir átökin.

Come on you Reds !


Fyrstu flugufiskar sumarsins

Jæja þá eru mínir fyrstu flugufiskar sumarsins komnir á land. Við Steini gerðum ágætan túr í vatn í nágrenni Reykjavíkur í gærkveldi. Fengum saman 12 urriða sem voru góðir pundfiskar hver. Setti inn nýja mynd af mér í náttúrunni með fiskana.

Þegar ég kom heim um kl. 12 í gærkveldi var Anna náttúrulega sofnuð og eldhúsborðið heima var undirlagt af alls kyns náttúruvænni og lífrænni matvöru. Anna er að flippa að ég held og þið farið nú ekkert lengra með það. Hún fór í tíma hjá einhverri gúru konu um daginn sem sagði henni hvað hún mætti borða samkvæmt blóðflokknum (A+) hennar. Það er skemmst frá því að segja að hún má nánast ekki borða neitt.  Engar mjólkurvörur, enga osta, ekkert með hvítu hveiti í o.s.frv. Tók til dæmis eftir því að eina kjötið sem hún má borða er kjöt af kven antilópu frá Suður Afríku. Eini fuglinn sem hún mátti borða með góðu var Geirfuglinn en hann er víst ekki til lengur. 

Íris mín spurði góðrar spurningar þegar ég sagði henni frá nýju matarÆÐI Önnu: Af hverju er hún að þessu ? Er henni illt einhvers staðar í líkamanum ? Hún lítur út eins og Hollywood stjarna og þarf ekkert á þessu að halda. Sem er náttúrulega hárrétt hjá Írisi.

Það verður því grillaður silungur í forrétt í kvöld og Anna fær soðinn Marhnút sem er eini fiskurinn sem hún má borða ...

 


Sumarvision

Nú er júróvision í kvöld, fyrsta kvöldið af þremur. Allt að verða vitlaust og maður heyrir ekki annað í útvarpinu en " this is my life ". Mér finnst hins vegar afar erfitt að þurfa að planta mér fyrir framan imbann í svona góðu sumarveðri, vill langtum frekar njóta útviverunnar. Ég er kominn með algert sumarvision.

Enda ætla ég að fara með félögum mínum að veiða eftir vinnu í kvöld því það er eitt af því besta sem ég geri. Vera í náttúrunni í rólegheitum og eina sem þú heyrir eru í fuglunum og línunni á flugustönginni. Hviss, hvass, bí bí. Einn með sjálfum sér og vatnsgutlinu. Engin vinna, engar áhyggjur, ekkert stress. Bara vera. Dásamlegt.

Ég tala nú ekki um ef maður er svo heppinn að fiskur taki fluguna, það er ótrúlega góð tilfinning.

Fæ börnin mín stór og smá í mat annað kvöld og er mjög að velta fyrir mér hvað ég ætla að hafa. Held að ég endi í einhverjum gamaldags mat enda um gamaldags fjölskyldusamkomu að ræða. Kannski silung á grillið ef ég verð heppinn í kvöld. Ætti kannski að sjóða silunginn eins og gert var í gamla daga og láta alla sjúga hausinn ?

Sjáum til.


Tutta bene

Já, róleg var helgin með eindæmum. Fórum reyndar á ball á föstudagskvöldið með Línuhönnun og við dönsuðum töluvert. Fórum þó snemma heim að venju. Laugardagurinn fór að mestu í þrif og tiltekt og svo fórum við í afmæli til Jökluls á sunnudegi.

Það var gott að hafa svona rólega helgi því mér sýnist að næsta rólega helgi geti orðið svona einhvern tíma eftir miðjan júli !

Anna er að fara í skólaslit í Dómus Vox í kvöld og fær þar umsögn um tónleikana hennar um daginn. Hún syngur líka eitt lag á skólaslitunum ef hún getur þar sem hún er með einhverja hálsbólgu.

Nú eru nákvæmlega 4 vikur þangað til við förum til Ítalíu, tutta bene ! Ég bætti við eini mynd af bænum Vernazza við Cinque Terre sem við ætlum að heimsækja.


Heimaleikfimi er heilsubót

Fyrir utan náttúrulega að textinn í Heimaleikfiminni sem við Anna höfum marg sinnis sungið við góða orðstýr og Elsa systir benti á,  þá eru þetta heimsbókmenntir miðað við Eyjuna Bahamas. Dýptin í textanum er með ólíkindum og óræðnin slík að lesa má úr textanum alla gleði og sorg heimsbyggðinnar undanfarna áratugi.  Hér kemur textinn til glöggvunar fyrir þá sem ekki þekkja:

Heimaleikfimi er heilsubót,

hressir man upp og gerir mann stífan.

Hvort sem að undir er gras eða grjót,

gólfteppi eldhús, stól eða dívan.

Heima, heimaleikfimi, hressir mann upp og gerir mann stífan.

Góða helgi.


Sumarið

Vá, heldur eru nú 2 skvísur komnar í sumarskap eins og sjá má á athugasemdum við síðasta blogg. Og ég vissi ekki einu sinni að það væri Eyja Bahamas sem er ennþá meira korní. Jæja, þetta er ungt og leikur sér ...Wink

Var í sumarfíling í gær og skellti mér eins míns liðs austur á bóginn og endaði á Laugarvatni. Á leiðinni voru græjurnar þandar í botn of það var sko ekkert Bahamas eyju væl heldur " best of deep Purple "  Á Laugarvatni hitti ég Steina vin minn og ætlunin var að njóta náttúrunnar og veiða smávegis.  Fengum lánaðan bát og dútluðum okkur með flugustangirnar okkar. Eftirtekjan var rýr, ég fékk einn putta sem fékk líf.

En eftir stóð yndisleg samvera með Steina í íslenskri náttúru, úti á vatni með flugustöng. Hei, beats watching telly ...

Erum að fara á sumarball með Línuhönnun í kvöld, 3ja rétta matseðill, ball með hljómsveit etc. Það verður æði !


Bahama

Nýjasta lagið í bransanum er Bahama með Ingó og fáir sem geta hamið sig þegar það er spilað. Ekki veit ég nú hvort Ingó sjálfur hefur samið þenna djúpa texta en hvernig sem það er þá vil ég beina mínum eindregnu tilmælum til höfundar og biðja hann vinsamlegast að leggja textagerðina á hilluna, í það minnsta ekki segja jup í vinnunni. Ég sé alveg í anda hvernig þeir hafa valið Bahama fyrst og búið svo til einhvern texta til að komast þangað af því að það er svo gott að syngja Bahama óóó´bahama jéjé bahama ...Shocking

Hér kemur byrjunin á laginu og vafalítið eiga margir fræðingar eftir að skrifa heilu bækurnar um dýpt og meiningu þessa texta:

Síðan þú fórst hef ég verið með magakveisu,

skildir ekkert eftir, nema þessa peysu.

Verst finnst mér þó að núna ertu með honum,

veistu hvað hann hefur hefur verið með mörgum konum ?

Þessi textagerð skilur eftir margt annað en peysu, í það minnsta magakveisu !Sick


Eniga meniga

Ég er ótrúlega lélegur í peningamálum og skil alls ekki málið með bankana. Allir bankarnir eru að skila þvílíkum hagnaði undangengna mánuði og á sama tíma eru þeir nánast að fara á hausinn. Þeir eru með óvenju hátt vaxtaálag erlendis af því að enginn treystir þeim lengur, eru að segja upp fullt af fólki og jafnvel að biðla til almennings að hann hlaupi undir bagga með þeim. ( ríkissjóður ).

Ég skildi svo sem aldrei heldur hvernig þeir gátu lagt undir sig hálfan heiminn, keypt stórfyrirtæki á báða bóga, spreðað í rándýrar veislur, utanlandsferðir og veiðiferðir þegar þjóðarbúið var ekkert að græða meira en venjulega, bara stöðugur viðskiptahalli. Því, ansk.. hafi það, ekki prenta þeir peninga. Það þarf að selja eitthvað til að sækja pening.

En, skýringin á þessu er líklega sú að ég er ótrúlega lélegur í peningamálum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband