Er að íhuga forsetaframboð

Á ferð minni um Norðurland heyrði ég frábæra sögu af Forsetafrú vorri sem virðist vera orðin handfylli fyrir Hr.Ólaf.

Í opinberri heimsókn þeirra í Skagafjörð um daginn var ákveðið að þau myndu heimsækja framsækinn bónda einn og m.a. var fjósið heimsótt. Búið var að þrífa fjósið hátt og lágt á þeim stöðum sem mektarfólkið átti að vera enda allir í sínu fínasta pússi. Forsetafrúin var t.d. í skósíðum glæsilegum pels. Þegar bóndin var í miðri ræðu sinni þá leiddist Dorrit þófið enda ekki í sviðsljósinu og tók á rás inn í fjósið. Ólafur náði ekki að stöðva hana og varð náttúrulega að halda áfram að hlusta á bóndann en aðrir í hópnum eltu hana skelfingu lostnir inn í fjósið og reyndu að sjá til þess að skósíði pelsinn kláraði ekki allt upp úr flórnum. Var nánast eins og menn væru í kurling á undan henni.

Það skipti ekki sköpum að þegar hún var komin inn í mitt fjósið og sá þar Búkollu sjálfa inn í básnum sínum þá vippaði hún sér á háhæluðu skónum inn í básinn og fór að strjúka kjassa Búkollu sem lá og jórtraði í rólegheitum.  Kusan var aldeilis ekki vön slíkum mikilmennum og stóð á fætur og var þá orðið heldur þröngt um þær báðar inni í básnum. Menn fóru að reyna ýta Búkollu til hliðar til að frelsa Dorrit en gekk illa og á endanum kallaði hún með enskum hreim: " Ólafug, Ólafug, getugu losag meg frá kúnne "

Eftir mikið japl og fuður tókst að koma henni úr básnum og við skulum bara hreint vona að bóndinn fái ekki reikning fyrir ónýtum pelsinum ...

Mér skilst reyndar að það sé að verða  ærið oft sem forsetafrúin tekur upp á slíkum uppákomum til að komast í sviðsljósið og því hef ég ákveðið, vegna fjölda áskorana, að íhuga forsetaframboð.  Það sem má telja mér helst til tekna í forsetaframboðið er að ég á alveg frábæra forsetafrú  ....


Norðan heiða

Það vara gott norðan heiða um helgina. Það var gott veður þrátt fyrir spá um allt annað, það var góð færð þrátt fyrir upplýsingar um annað og umfram allt, það var æðislegt fólk sem við hittum þar.

Við hittum Ingva hinn mikla tenor og flest af hans börnum. Þessi fjölskylda er öll alveg sérstök og á sérstakan sess í hjarta okkar Önnu. Það  var spilað á píanó, blásið í lúðra og sungið mikið.  Mikið faðmað kjassað og kysst. Wink

Fórum svo á Krókinn til Maríu og Ómars og fengum þar konunglegar móttökur að venju.

Þetta var góð ferð og við komum ekki heim aftur fyrr en í gærkveldi. Úr 15° hita logn og sól.

Framundan er .....ja .... bara ekkert að gerast, þannig séð. Við getum bara ráðið því hvað við gerum á kvöldin. Hvort við förum að hjóla, ganga, í heimsóknir, veiða eða annað. Enginn söngur, bara frí.

Síðustu tónleikarnir voru nefnilega hjá Önnu á föstudagskvöldið þegar Vox Feminae hélt ótrúlega skemmtilega tónleika í Hafnarborg í Hafnarfirði. Þar söng m.a. Auður Gunnars nokkur lög og hún var hreint frábær. Takk kærlega fyrir þetta yndislega kvöld.

 


Enn um morgungöngu

Fékk senda vísu frá Stefán Halldórssyni Fóstbróður sem var með mér í göngunni í morgun og lýsir hún kannski best gönguferðinni. Setti svo inn nýja mynd af kórnum á toppnum.

 

Á Úlfarsfell ýmsir gengu,
og aldeilis upp úr engu
þar Fóstbræður sungu
með fullþanin lungu,
svo fullnæging' allir fengu.


Nálægt Almættinu

Klukkan nákvæmlega 5.30 í morgun vaknaði ég við klukkuna og vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið. Áttaði mig síðan á aðstæðum og henti mé fram úr. klæddi mig í göngugallann minn og hélt upp að Úlfarsfelli. Þar hitti ég um 80 manns og hluti af þeim hópi voru félagar mínir úr Fóstbræðrum.

Þetta var síðasti hluti morgun fjallgöngu Ferðafélags Íslands en félagar þar hafa gengið á nokkur fjöll í nágrenni Reykjavíkur alla morgna í vikunni.

Rigningin ágerðist er við héldum á brattann og þegar tindi var náð um kl. 6.45 var komið úrhelli. Á toppnum þar sem örstutt var í Almættið fengum við morgunbita í boði Ferðafélagsins og Jóa Fel og síðan sungum við Fóstbræður fyrir þátttakendur 3 lög.  Það var ekki laust við að maður sæi brosvipru á himninum þegar við sungum ægifagurt ( miðað við tíma og aðstæður ) sálminn Hærra minn guð til þín. Setti inn mynd sem tekin var á símann minn í morgun af mér og Páli Ásgeiri göngustjóra. Ég er þessi minni á myndinni sem er mjög óskýr í rigningunni.

Dásamleg byrjun á deginum.

Við erum svo að fara í fyrramálið til Akureyri í fermingu o.fl. Sigga H kemur líka og María Björk og Ómar verða á svæðinu. Þetta verður því menningarferð norður. Verst með veðrið.

Í kvöld syngur Anna á tónleikum með Vox Feminae og einsöngvurum í Hafnarborg í Hafnarfirði. Frábærir og umfram allt, léttir og skemmtilegir tónleikar.

Góða Hvítasunnuhelgi öll sömul.


Blikur á lofti

Mér líður ótrúlega vel þessa dagana og finn fyrir sömu öryggis tilfinningu og konur sem nota Always Ultra, að ég held. Ástæðan er augljós, nú þarf ég ekki lengur að búa yfir stöðugum áhyggjum af því að eitthvað hræðilegt steypist yfir mig úr himinhvolfunum. Ég þarf ekki lengur að hafa áhyggjur af því að ótíndir glæpamenn eins og Rússverjar, Þjóðverjar, Pólverjar, Geimverjar, Gnúpverjar eða aðrir verjar ráðist að mér óvörum úr lofthelginni. Vinkona mín hún Ingibjörg Sólrún hefur séð fyrir því að næstu nokkrar vikurnar munu Fransmenn fljúga um loftin blá á hljóðfráum herþotum sínum og stugga frá alls kyns lýð og mega nú jafnvel farfuglarnir fara að vara sig.

Þetta var snilldarbragð frá hendi Ingibjargar því eftir að Bandaríkjamenn fóru höfum við verið algerlega varnarlaus og liðið hreint eins og í helvíti. Það gefur auga leiða að við þurftum virkilega á því að halda að hinir fallegu og tungulipru Fransmenn kæmu okkur til hjálpar jafnvel þótt það sé aðeins nokkrar vikur á ári og óþjóðalýðurin getir vaðið uppi í lofthelginni hinar vikurnar, jafnvel þótt það kosti okkur 120 miljónir og sumir segja að þetta sé ódýrasta sumarfrí sem nokkur hermaður hefur fengið. Jafnvel þótt við gætum notað þessar milljónir í sjúkrahúsin, fyrir foreldra langveikra barna eða fyrir foreldra unglinga í vímuefnum sem eiga í engin hús að venda. 

Snilldarhugmynd, jafnvel þótt það sé hlegið að okkur sitt hvorum megin Atlandsála.

Ég er þess fullviss að þegar þessir hernaðar snillingar hafa lokið sér af þá sjást ekki lengur kríur og mávar, hvað þá blikur á lofti yfir höfðum okkar.

Allt í nafni friðar og réttlætis.

 


Fyrsta veiðiferðin

Ég fór ásamt 2 félögum mínum, Steina og Hjölla á Þingvöll í gærkveldi.  Margir hafa vafalítið haldið að við værum skrítnir að fara í veiðiferð í rigningu og roki. Þetta var hins vega dásamleg ferð. Veðrið batnaði alla leiðina og var þurrt og nánast logn. Við settum græjurnar saman og óðum út í köstuðum á báða bóga. Kyrrðin var alger og smá gjóla lék um andlitið. Við fengum engan fisk,, ekki einu sinni högg en það skipti engu máli. Bara tilfinningin að vera úti í náttúrunni með bestu vinum sínum var það sem skipti öllu máli.

Kom aftur milli tólf og eitt í nótt og steinsofnaði. Þreittur en endurnærður í dag Smile.


Leti

Já letin var í hávegum höfð um helgina og það er svo skrítið að ef maður leyfir sér að vera latur þá fær maður samviskubit. Samt er það eðilegasti hlutur í heimi, svona inn á milli.

Vissulega fórum við í ræktina á laugardaginn og sund á sunnudaginn, gegnum frá þvotti og straujuðum en við sváfum líka mikið og jafnvel lögðum okkur á laugardaginn. Það gerist afar sjaldan á þessu heimili.

Fengum svo Andra og Erlu í mat í gærkveldi og elduðum dýrindis humar/rækjurétt og vorum með ítalskan forrétt.  Sáum Írisi og fjölskyldu í Innlit/Útlit í gær og þau voru æði.

Ég sótti um nám í Háskóla Íslands á föstudag í markaðs og vörumerkja stjórnun. Þetta er hörku nám samhliða starfi sem tekur tvær annir þannig að lífið hjá mér næsta vetur verður eitthvað skrítið. Ég verð sem sagt eins og þetta leiðinda fólk sem aldrei hefur tíma til að gera neitt skemmtilegt af því að það þarf að læra svo mikið. Ég bið ykkur bara að þola mig þennan vetur því svo kemur sumar eftir það Cool ( þ.e.a.s. ef ég fæ inngöngu )

Er að fara að veiða á morgun eftir vinnu með Steina og Guðbirni í eitthvert vatnið í grennd við Reykjavík. Hlakka mikið til að það skiptir litlu máli þótt enginn komi fiskurinn á land því ég er aðallega að ná úr mér mesta veiði hrollinum.

Er svo að fara á tónleika með Karlakór Reykjavíkur í kvöld ásamt nokkrum Fóstbræðrum. Maður verður alltaf að tékka á samkeppninni. Það er ekki ólíklegt að þeir séu annar besti karlakór á landinu ,,,,,,, á eftir okkur Wink

Gleymdi næstum því,, ég fór í söngferð á mýrarnar á föstudagskvöldið og söng þar með félögum mínum í Fóstbræðrum og Samkór Mýramanna. Við áttum þarna yndislega stund og nutum víðfrægrar gestrisini Mýramanna. Svona um það bil sem við vorum að fara var hljómsveitin farin að spila fyrir dansi og við nokkrir komnir út á dansgólf. Það er öruggt að það hafa margar blómarósirnar grátið þegar þær sáu á bak Valda bakara því hann hafði að venju töfrað þær allar upp úr skónum. Ótrúlegt kyntröl þessi drengur.Police

 


Lundúnir

Kominn til baka frá Englandi heill heilsu og með bjórvömb. Þetta var ansi strembin ferð og ekki laust við að ég sé dálítið þreyttur.

Flugum út eeeld snemma á þriðjudagsmorgun og tókum bíl þegar komið var á Stanstead. Þetta voru rúmlega 300 km til Manchester og átti að taka ca 3 tíma. Við vorum hins vegar eina 5 tíma á leiðinni og lenntum í ýmsu. Umferðin var óvenju sein, slys hér og þar og svo þegar vinkona okkar í Navigeitornum var að leiða okkur í gegnum einhvern smábæinn þá var búið að loka veginum sem við áttum að taka. hún vissi það náttúrulega ekki og tók lét okkur keyra hring eftir hring og endaði alltaf á sama stað. spurði lok lögreglumann um leiðinni og eftir töluvert bull um " two blocks from the right you take a left turn and then 6 blocks from the left you take a right turn ...." þá fundum við réttu leiðina út úr prísundinni og héldum áfram. Tók samt ekki betra við því umferðin bifaðist ekki í langan tíma þrátt fyrir 2 akreinar. Þegar við loks sáum ástæðuna þá var hún líkbíll fremst og löööng líkfylgd á eftir.

Komumst nú samt til Manchester að lokum og náðum leiknum. Innan um 75.201 áhorfanda skemmtum við okkur konunglega en vorum reyndar ekki góðum stað. Eftir leikinn rétt náðum við 2 bjórum áður en allir pöbbarnir lokuðu.

Fórum snemma af stað til London daginn eftir og þá tók leiðin ekki nema 3,5 tíma. Vorum á flottu hóteli og vorum komnir á pöbbarölt upp úr kl. 15. Héldum því síðan áfram eitthvað fram á nóttina....Shocking

Þetta var mín fyrsta ferð til Lundúnaborgar og ég verð að segja að ég varð lítið impóneraður yfir henni. Pöbbarnir flottir en allt annað frekar grámyglulegt enda veðrið kannski ekki upp á marga fiska.  borðuðu á ágætum og heimilislegum ítölskum stað sem heitir La Verona að mig minnir.

Hvað mig varðar þá er ég búinn að fara mína ferð til Lundúna og ef það er einhver sem getur sagt mér af hverju í ósköpunum er verið að þýða nafnið á borginni þá vinsamlegast sendið á mig línu.

Er að fara vestur á Mýrar í kvöld með félögum mínum í Fóstbræðrum að syngja með Samkór Mýrarmanna og hlakkar mikið til . Þetta eru höfðingjar heim að sækja og víst er að þða verður boðið upp á ekta fermingarhlaðborð á eftir.


Róleg helgi

Helgin  var róleg og ljúf en því miður var Anna veik eftir allan sönginn og undirbúninginn. Jökull var hjá okkur  um helgina og við fórum saman á Skilaboðaskjóðuna í Þjóðleikhúsinu í gær. Hörku gaman.

Lagaði aðeins til í garðinum og við grilluðum og grilluðum.

Er að fara í enn eina viðskiptaferðina í fyrramálið ( nótt ). Þær geta nú verið þreytandi þessar ferðir og nú t.d. erum við að fara með kúnna á leik Man United - Barcelona í Meistaradeildinni, alveg ótrúlega þreytandi ... Kem aftur heim á fimmtudag þannig að ég næ einum degi í London sjálfri. Mínum fyrsta degi í London, belífitornot. Þeir spá að vísu hundleiðinlegu veðri, stormi og rigningu og eru jafnvel með viðvaranir í gangi.

Ég læt það eins og storm um eyrun þjóta og ætla mér að njóta lífsins í London. I say, I will have a jolly good time over there, it will be absolutely marvellous. Splendid even ! 

Chiao old chap !


Star Trek

Nú er ég orðin startrek þ.e. hjólastjarna því ég keypti mér nýtt hjól í vikunni og það ekki af verri endanum.

Trek Navigator 3,0 á 52 þús kr takk. Það er svo fullkomið að það er næstum því sjálfskipt og ég veit að kvenfólk á eftir að taka eftir mér þegar ég hjóla glæsilega fram hjá. Það er verst með þennan blessaða reiðhjólahjálm, maður lítur út eins og hálfviti með hann. Af hverju er ekki hægt að búa til sexí hjálm ? Jæja, það er þú betra að líta hálfvitalega út heldur en að líta bara alls ekki út. ( þetta var mjög djúp pæling og ég vona að fólk skilji hana .. )


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband