Úff

Fór í sund í morgun og steig á viktina að venju og ÚFF !, búinn að bæta við mig 2 kílóum á einum mánuði. Óþolandi og skal ekki líðast.  Skil ekkert í þessu því það er nú ekki eins og ég sé að úða í mig óhollustu alla daga og fór 3svar í ræktina í síðustu viku. Kannski hafði þorramaturin í hádeginu á föstudag, léttreykta ameríska svínasteikin hjá Ingu á laugardagskvöldið, snakkið og súkkulaðið um helgina eitthvað að segja. Hver veit. Hvað svo sem var, þá verður etið létt í vikunni.

Erum eiginlega búin að ákveða að breyta tímasetningunni á Toscana ferðinni okkar og fara í júní í staðinn. Heyrði nefnilega að hálf Ítalía væri í fríi í ágúst svo og Frakkland og Þýskaland og það fólk væri að megninu til á Ítalíu ! Tek kannski 2 síðustu vikurnar í júní.

Ætla að reyna að ná 4 sinnum í ræktina þessa viku Crying


Jibbí !

Loksins , loksins er komið alvöru vetrarveður. Ég vaknaði mörgum sinnum upp í nótt til þess eins að horfa á veðrið og hlakkaði svo mikið til að vakna að ég náði varla að sofna. Enda var eins og við manninn mælt þegar ég fór út um kl 8, kappdúðaður með skófluna, þá beið mín strax bíll sem var fastur í innkeyrslunni. Ég mokaði og ýtti og allt gekk vel. Fór svo að græja minn bíl og var orðinn eins og jólasveinn, allur hvítur af snjó frá hvirfli til ylja. Hvílík dýrð. Svo allt í einu var veðrið bara búið, fúlt ...

Bóndadagur í dag og Anna verður að syngja með kórnum í kvöld. Þarf jafnvel sjálfur að elda Wink Hún bauð mér hins vegar í mat til sín í hádeginu og kom verulega á óvart því það var glæsilegt þorrahlaðborð.

Svei mér þá ef veðrið er ekki að versna aftur ...Smile

 


Hnífasett á útsölu

Kíkti áðan í Heimilistæki og keypti 2 eyrnasett ( heyrnasett ) eða sem sagt litla hátalara til að setja í eyrun handa mér og Önnu í ræktina. Sá ekki betur en þar væru til hnífasett á útsölu og kannski spurning fyrir borgarfulltrúa vora að kíkja .......Devil

Himnarnir gráta

Himnarnir gráta, Kári þenur brjóstið og Ægir konungur hellir úrt skálum reyði sinnar af því að við borgarbúar höfum enn eina ferðina verið sviknir.  Mikið hlítur að vera gaman að vera fréttamaður þessa dagana þegar Villi & Co bjóða upp á enn eina sápuóperuna í beinni útsendingu.  Þú skalt fara minn veg ég skal fara þinn veg og svo hittumst við á miðri leið,,, og skiptum á kórónunni.

Held svo sem að Óli sé trú sinni sannfæringu blessaður kallinn en einfaldleikinn er slíkur að hann heldur að hann nái sínum markmiðum betur með sjallanum heldur en allanum. Je ræt. Hann er örugglega búinn að gleyma öllu hnífasettinu sem sem Villi setti í bakið á honum þegar fyrsti meirhlutinn var myndaður. Eðlilegt að maðurinn hafi veikst við slíkar stungur en eitthvað virðist það hafa minnkað í honum minnið því nú er allt í einu hægt að treysta Villa og trúa. Nú er Villi voða góður.

Villi og Sjálfstæðisflokkurinn hafa hins vegar enn á ný sýnt sitt rétta andlit og eru tilbúnir að sofa hjá hverjum sem er svo fremi sem þeir fái völdin og ekki síst kórónuna.

Hvar er sannfæringin ? Hvar er heiðarleikinn ? Villi er búinn að leika svo mörgum skjöldum að hann er búinn að fara í marga hringi. fyrst ætlaði hann að semja við Óla en sveik hann og samdi við Bjössa.  Svo ákvað hann að standa með Bjössa í Rey málinu en ákvað svo að Rey málið væri tómt bull. Síðan ákvað hann að svíkja Bjössa og standa með Óla. Aldrei mun hann standa með okkur borgarbúum.  

Ég hef fengið ýmigust á stjórnmálamönnum, held ég horfi þá frekar á handboltann ......


Róleg helgi

Þvílíkt hvað maður er afslappaður eftir helgina, svona eiga allar helgar að vera. Ekkert djamm, ekkert djús og fórum jafnvel í kirkju á laugardagskvöldið.

Við tókum að vísu góðan göngutúr til Írisar um klukkutíma sitthvora leið í þessu æðislega veðri og svei mér þá ef maður finnur ekki fyrir því í dag. Anna meira að segja fór í ræktina um morguninn þannig að það er alltaf nógur kraftur í henni.

Eitthvað virðist hafa frosið á nokkrum einstaklingum hér í bæ því nú á að fara taka gröf við hliðina á þjóðskáldunum sem liggja í vígðri gröf á Þingvöllum.  Í gröfina skal leggja sjálfan Fisher skákmeistara sem unnið hefir til þess á sinni ævi að vera góður í skák. Skiptir engu máli þótt hann hafi komið illa fram við fólk, hafi verið hálf eða al geðveikur alla sína ævi. Nei, nú skal hann tekinn fram yfir alla þá snillinga sem dáið hafa síðan Jónas var og hét. Eigum við ekki að reyna að fá jarðneskar leyfar John Lennons líka og búa svona til frægðar kirkjugarð sem allir túristar geta skoðað á Þingvöllum. ? Ég spyr nú bara, er ekki allt í lagi ???

Eitt er nú að gera þennan mann að Íslendingi og annað að gera dýrðling úr honum.

Mikið er ég heppinn að hafa tekið þá meðvituðu ákvörðun að horfa ekki á íslenska landsliðið í handbolta Wink


Sumar og vetur

Ég horfði ekki á landsleikinn í gærkveldi. Byrjaði reyndar aðeins meðan jafnræði var með liðunum en hætti svo og fór í nýja fallega eldhúsið mitt að elda góðan mat. Lambaribey með tilheyrandi og opnaði jafnvel góða rauðvínsflösku með. Ástæðan fyrir því að ég horfði ekki á leikinn er einföld, ég þoli ekki þegar illa gengur og ef við töpum þá er ég í vondu skapi í laaaangan tíma. Það þoli ég ekki.

Það hlítur líka að vera erfitt fyrir strákana okkar að vera með þessa pressu á bakinu því mér heyrist ekki betur en að mönnum finnist bara eðlilegt að við komum heim með verðlaunapening. Átti að vera nánast formsatriði að rúlla yfir Svía. Ég held að við þurfum að gera okkur grein fyrir því að bara að vera á þessu móti er stórkostlegur árangur.

Mikið er ég ánægður með veðrið og snjóinn. Einhvern veginn allt annað að vera til þegar allt er hvítt í kringum mann.  Mætti bara snjóa meira og blása hressilega því þá verður gaman. Þá er líka enn skemmtilegra að vafra á netinu í leit að góðum gististöðum í Toscana, íbúðum eða húsum í fallegum smábæjum. Ég á mér ósk um að fá einhverja vini mína með aðra vikuna því það er svo gaman að njóta fegurðarinnar, matarins og vínanna með öðru góðu fólki sem kann að meta slíkt. Ég á 2 vini sem ég gæti vel hugsað mér að taka með en þau eru bæði einhleyp og ég veit ekki alveg hvernig staðan á þeim er núna. Höfum farið með þeim áður erlendis ...Joyful Ég á reyndar svo marga góða vini að við gætum vel fyllt upp í góðan kastala í Toscana ... Solla vinkona Írisar sendi á mig ágætan link yfir gististaði sem gaman er að skoða og ef einhver vill sjá hann er hann í athugasemdum við bloggfærsluna " Sundsvall í ... " Annars er til ótrúlegt magn af slíkum linkum.

Búinn að fá fréttir af pabba og Ernu í Tælandi og þau hafa það fínt. Hitinn kringum 30 gráðurnar og þau eru í rólegheitum að átta sig á hlutum, enda ætla þau að vera þarna í 2 mánuði. Eru í fallegri íbúð í húsi sem a.m.k. ein íslensk hjón eru í og svo er Kiddi bróðir þarna líka nýgiftur og flottur.

Helgin framundan róleg og góð og ég hlakka þvílíkt til að gera næstum því ekkert neitt Happy


Vogur

Nú þegar ég skrifa þetta þá er ég staddur á Vogi og kominn í náttföt. Eða í það minnsta næstum því Wink.

Þetta hafa verið erfiðir dagar undanfarið enda verið með heimsókn frá Heineken. Ungan markaðsmann sem aldrei hafði komið hingað áður og þurfti að skoða allt sem hægt var að skoða. Sem þýddi náttúrlega að endalaust var verið að sulla í bjór og víni Sick  Fór með hann á þorrablót hjá Lyons á föstudagskvöldið og hann skemmti sér sérdeilis vel og borðaði allt sem fyrir hann var lagt. Verst þótti honum að borða augað og ég var svo sem ekkert að segja honum að fæstir íslendingar þyrðu því ... . Fór einnig með hann í Bláa lónið sem hann fílaði mjög vel og hann var ekkert smá ánægður með að ég skildi panta allan þennan snjó fyrir hann. Held að hann hafi farið ánægður heim í gær ....

Talaði við Írisi í gær en hún er nýkomin frá Köben með mömmu sinni. Hún skemmti sér þar mjög vel og m.a. söng í karaokee á sama bar ( Sam´s bar ) og pabbi hennar þegar hann var þar síðast. Like father, like daughter. Við erum líka lík að öðru leiti t.d. hvað varðar gáfurnar en hún náði öllum prófunum í Háskólanum og með hæstu einkunn. Ótrúlega dugleg !

Næsta helgi verður þvílíkt róleg og ég virkilega þarf á því að halda.  Af sérstökum ástæðum verður þetta sérstök trúarhelgi og t.d. förum við í kirkju á laugardagskvöldið sem hlítur að teljast til tíðinda. Fyrir handan fjöllin er fagurt land að sjá .....

Anna er í sólarlandakasti og vill helst bara panta ferð núna ! Ég verð svo sem að viðurkenna að það er ekkert smá freistandi að skella sér til Tenerife í viku og flatmaga í sól og hita, drekkandi kokteila á hverjum degi ....Cool en, ég veit ekki. Allt kostar þetta þó hægt sé að fá ódýrar ferðir sérstaklega fyrir fólk eins og okkur sem kunnum að njóta lífsins. Sjáum hvað setur.

Vogur vinnur, vogur tapar .....


Sundsvall í Sundsvall

Nú er það opinbert, við karlar getum flutt til Sundsvall í Svíþjóð. Þar hefur brjóstafélag Sviþjóðar fengið í gegn að konur mega vera berar að ofan í sundlaugunum í Sundsvall. Það má því búast við miklu sund svalli á þeim bæ á næstunni. Ennfremur var í Fréttunum að Sundsvall væri á höttunum eftir Hannesi Þ Sigurðssyni knatsspyrnumanni og þykir einsýnt að hann muni taka tilboði þeirra eftir þessar breytingar. Leitt hefur verið að því líkum að þessar sund breytingar hafa eingöngu verið gerðar til að lokka Hannes og aðra fallega knattspyrnumenn til Sundsvall. Sundsvall, her kommar jag ...

Ég bara nenni ekki að blogga um þessi forljótu hús á Laugaveginum sem á nú að fara að friða með ærnum tilkostnaði ( úr mínum vasa ) til að friða fámenna klíku íhaldsamra manna. Ég bara nenni því ekki.

Við hjónakornin sáum frábæra mynd í gærkveldi. Um er að ræða ástarmynd sem heitir " Under the Toscan sun " og gerist eins og að líkum lætur að mestu leyti í Toscana héraðinu á Ítalíu. Þetta er undurfögur mynd í undurfögru umhverfi og algerlega án tilgerðar.  Mæli eindregið með henni og hún festi áætlun mínu um að heimsækja Toscsana næsta sumar í sessi.

Við erum sem sagt að hugsa um að leigja okkur hús í miðju Toscana í viku til 10 daga næsta sumar ( ágúst ) og ferðast þar um nágrennið og skoða ýmsa staði. Það er stutt í marga staði s.s. 1 klst ferð til San Gimignano, Flórens, Piza, Lucca, Sinque Terre o.s.frv.   Kíkja jafnvel niður til Rómar í eina nótt. Veit ekki hvort við förum bara 2 eða reynum að fá einhverja með okkur.

Var slappur í gær , með smá hita og hausverk. Ákvað að taka engan sjens og var heima í rúminu enda mikið að gera framundan. Er að fá í heimsókn mann frá Heineken sem verður hérna í næstum viku og svo kemur annar á mánudag. Það verður því hið " ljúfa " líf næstu 6 kvöldin ....... Panta mér náttföt á Vogi eftir það. 

 

 


Í hvelli

Keyrði fram hjá Helga Hós áðan þar sem hann var með eitt af sínum skiltum og á því stóð " brennið þið kirkjur, brennið þið ... eitthvað meira " Var einmitt að hugsa um þessa hluti í gærkveldi kl. 11 þegar ég var að reyna að sofna en úti geysaði stríð. Þegar ég loksins sofnaði þá dreymdi ég um Viet Nam og stríðið þar enda blönduðust endalausar sprengingarnar úti saman við drauminn.

Það er ekki allt í lagi með Íslendinga, þeir eru sprengjuóðir. Það virðist engu máli skipta hvað þetta kostar, alltaf til nægir peningar til að eyða í púður.  Mikið er ég feginn að hafa eytt gamlárskveldi í rólegheitum í sveitinni með ástkonu minni ( Önnu Birgittu ) og hlusta bara á eina og eina sprengingu í fjarska.

Þessi helgi hefði annars átt að vera róleg en var það alls ekki.  Hittum fjölskyldu mína á föstudagskvöldið og við vorum að kveðja Pabba og Ernu sem fóru í morgun til Thailands og ætla að dvelja þar í 2 mánuði.  Þetta var mjög gaman, borðuðum snarl saman og fengum okkur aðeins í tána. Fórum ekki að sofa fyrr en um kl. 2 um nóttina.

Fórum svo í 40tugs afmæli til Esterar á laugardagskveldið og lentum þar í miklu stuði. Sungum Dagnýju saman við undirleik fyrir afmælisbarnið og fengum mikið lof fyrir. Fórum ekki að sofa fyrr en kl. 2 um nóttina.

Vorum svo með börnin okkar stór og smá í kvöldmat í gær og það var sko æði. Andri kom með kærustuna sína hana Erlu og ég var að hitta hana í fyrsta sinn. Írisi kom með Óskar og Úlfar en Jökull var hjá pabba sínum. Það var ekkert leiðinlegt að hafa Úlfar og Amma var frekar ánægð með hann InLove

Fór á veiðimannafund á laugardag með Steina,Guðbirni, Hjölla og Katrínu og sótti svo um laxveiði hjá Stangó. Ætlum okkur að reyna við Fnjóská fyrir norðan, Norðlingafljótið í Borgarfirði og Sogið alviðru. Svo kemur bara í ljós hvað við fáum úthlutað og það er nokkuð víst að það þarf heppni til að komast í Fnjóskána, það verður örugglega dregið um hana. Við erum að vísu með nokkuð sterka hópumsókn.

Rikki veiðisjúklingur fór að veiða í ónefndu vatni á laugardag og náði sínum fyrsta fiski á árinu, 3ja punda urriða. Hann er ótrúlegur .....

 


Sigga systir

Hún Sigga " systir " er látin. Sigga ( Sigríður Arnlaugsdóttir ) er reyndar stóra systir hans pabba en við kölluðum hana alltaf Siggu systir af einhverjum ástæðum. Kannski að því að það var alltaf svo yndislegt að heimsækja hana. Inni í litlu herbergi í Hlíðunum lumaði hún alltaf á Makintosh og Cadbury súkkulaði en það fékkst hvergi annars á landinu Smile Siggi maðurinn hennar var nefnilega flugmaður og ljósmyndari sem betur fer því nær einu myndirnar sem til eru af okkur systkyninum erum teknar af honum. Jarðaförin er á eftir og svo ætlum við frændsystkynin að hittast í súpu eftir á. Það verður gaman að hitta frændsystkynin, alltof sjaldan sem maður gerir það.

Sigga var yndisleg manneskja, blessuð sé minning hennar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband