Flottustu tónleikarnir í kvöld !

Í kvöld kl. 20 verða minningartónleikar um Stulla minn og það verða engir smá tónleikar. Fóstbræður, Raddbandafélagið og Gissur H Gissurarson Tenór. Hörku karlakóralög, létt karlakóralög, jólalög o.fl.

Tónleikarnir verða í Langholtskirkju og kostar ekki nema 1.000 kr inn, lang ódýrustu tónleikarnir í ár !

Ég skora á alla að mæta, þetta verða frábærir tónleikar til minningar um enn frábærari mann !!!


Heiðardalurinn.

Kominn heim í Heiðardalinn, kominn heim með slitna skó, kominn heim til að hamast heima, ég er kominn heim en finn enga ró .....

Byrjaði á því á leiðinni í leigubílnum frá Keflavík að hringja í Fríform. Innréttingin kominn nema borðplatan, hún kemur í næstu viku. Setja innréttinguna saman, nú áttum við að setja hana saman o.s.frv. Fæ hana þó í dag með öllum tækjum en verð að henda henni í vinnuna mína af því að það er ekkert pláss heima. Á jú eftir að taka niður hina innréttinguna og jafnvel að tæma hana ..

Fer í það allt á eftir og svo kemur Steini í fyrramálið og ég hjálpa honum við þetta allt saman. Náði að selja gömlu innréttinguna á 50 þús og það er ungur Pólverji sem kaupir hana.

Það verður því stuð stuð stuð um helgina, fljúgandi skápar, borð og tæki um alla íbúð, jíbbí !!!Whistling Spurning hvort ég þurfi ekki að eiga nóg af bjór fyrir okkur Steina um helgina ...Shocking

Stíla inn á að þetta sé altt búið fljótlega eftir helgina ..


Stressaður

Ekki laust við að ég sé að verða örlítið stressaður. Fullt að gera um helgina, bæði í social lífinu og breytingum heima fyrir. Er svo að fara til Hollands í fyrramálið og kem aftur á fimmtudag. Þá um það bil ætti nýja eldhús innréttingin mín að vera tilbúin og þá er " bara " eftir að taka hina niður, ganga frá henni, færa pípulögn og rafmagn og setja hina innréttinguna upp ...CryingSem betur fer hef ég Steina mér við hlið í þessum efnum og það er enginn betri en hann.Grin

Verð samt að fara á æfingu í kvöld þar sem ég syng á minningartónleikum Stulla næsta mánudagskvöld. Menn í kórnum halda bara að ég ætli að mæta í sönginn án þess að æfa nokkuð ..

Það verður sum sagt lítið um bloggeringar af minni hálfu þessa viku.


Þegar frýs í helvíti

2 Íslendingar dóu og vakna upp í helvíti.
Daginn eftir tékkar Djöfullinn sjálfur á þeim og sér að þeir sitja í mestu makindum í úlpunum sínum, með vettlinga og húfur og orna sér við eldinn. Djöfullinn spyr þá hvað þeir séu eiginlega að gera? Er ekki nógu heitt í helvíti fyrir ykkur ?
Gaurarnir svara, "Sko, þú veist, við erum frá Íslandi, landi snjós, íss og kulda. Við erum bara ánægðir að fá smá yl í kroppinn."
Djöfullinn ákveður að þeir séu nú ekki að þjást nóg svo hann skrúfar upp hitann.
Morguninn eftir kíkir hann aftur á gaurana tvo og þarna sitja þeir ennþá í úlpum með húfurnar og vettlingana ennþá á. Það er nú ferlega heitt hérna, finnst ykkur það ekki?
Aftur svara gaurarnir því til að þeir komi jú frá Íslandi, landi snjóa, íss og kulda, við erum bara fegnir að fá smá yl í kroppinn !
Það fór nú að fjúka nett í Kölska og hann ákveður að jafna örlítið um þessa tvo gaura. Hann fer og setur hitann á "Fáránlegt". Fólk fer að veina og væla út um allt helvíti. Hann fer svo og kíkir á gaurana tvo frá Íslandi og sér að þeir eru komnir á skyrtuna með upprúllaðar ermar og eru að grilla pylsur og þamba bjór.
Djöfsi verður steinhissa " Allir hérna inni þjást og veina, en þið virðist bara njóta ykkar?"
Já sko, það er svo hrikalega sjaldan að við fáum svona gott veður heima á Íslandi, að við urðum bara að grípa tækifærið og grilla aðeins og súpa á öli.
Alveg óður af bræði, strunsar Djöfsi í burtu og hugsar málið. Að lokum kemst hann að þeirri niðurstöðu að þessir gaurar hafi verið að krókna allt sitt auma líf á Íslandi, þess vegna eru þeir svona kátir yfir öllum hitanum. Djöfullinn ákveður að skrúfa fyrir allan hitann í öllu Helvíti.
Daginn eftir er orðið ískalt í Helvíti og héla og grýlukerti allsstaðar. Fólki orðið svo kalt að það gat varla gert neitt annað en veinað og aumkað sér yfir kuldanum. Tannaglamur yfirgnæfði samt að mestu veinin. Djöfullinn glotti með sjálfum sér og fór að kíkja á gaurana frá Íslandi.

Þar eru þeir komnir í úlpuna, húfuna og með vettlingana á sér...en Djöfsa til mikillar furðu, eru þeir að hoppa og öskra Ole ole af mikilli gleði !?
Ég skil ekki, sagði Djöfsi, ég skrúfaði hitann upp úr öllu valdi og þið voruð bara ánægðir og núna er bullandi frost hérna og þið bara öskrandi af gleði?? Hvað í fjáranum er að ykkur tveim?
 
Íslendingarnir líta á Djöfsa með spurn í augum, " Ha, veistu það ekki? Ef það frýs í helvíti, þýðir það bara að Íslendingar hafa unnið Dani loksins á Parken!" 
 


Líttu á lífsins björtustu hlið

Mánudaginn 10. desember halda Karlakórinn Fóstbræður og Raddbandafélag Reykjavíkur sameiginlega tónleika í Langholtskirkju kl. 20.00.

Tónleikarnir eru haldnir til minningar um Sturlu Erlendsson en hann var félagi í báðum kórum um árabil. Sturla hefði orðið 53 ára gamall 6. desember 2007 hefði hann lifað en hann lést 5. janúar 2007.

Á tónleikunum flytja kórarnir létta tónlist af ýmsu tagi, dægurlög, ástarsöngva, jólalög og gamankvæði, sum með texta eftir Sturlu. Einsöngvari með kórunum verður Gissur Páll Gissurarson, tenór en Ingunn Hildur Hauksdóttir leikur með á píanó.

Stjórnandi Karlakórsins Fóstbræðra er Árni Harðarson en Sigrún Grendal stjórnar Raddbandafélagi Reykjavíkur.

Aðgangseyrir er kr. 1000.

 

Sendu þessi skilaboð áfram til allra sem kynntust Sturlu og smitandi lífsgleði hans. Minning hans lifir. Hittumst í Langholtskirkju með bros á vör.


Bleikt og blátt

Enn á ný verð ég að lýsa yfir ánægju minni með kven þingmenn (þingfólkið) sem alltaf er að vinna fyrir laununum sínum sem ég greiði þeim. Nú hefur háttvirtur þingmaður Vinstri Grænna hún Kolbrún Halldórsdóttir fundið enn eitt meinið í þjóðfélaginu. Nú er hún með fyrirspurn til Heilbrigðisráðherra um klæðnað nýfæddra barna á sængurdeildum. Af hverju í ósköpunum, hæstvirti heilsbrigðisráðherra, eru nýfæddir strákar í bláum galla en nýfæddar stelpur fá bara bleika galla. Þetta er ótrúlegt hugsunarleysi og markar jafnvel líf þessara barna verulega þegar til framtíðar er litið.  

Ég talaði við Birkir vin minn um þetta og hann tók heilshugar undir þetta og rifjaði upp þegar hann lá einn meðal 5 stúlkna á fæðingardeildinni og skar sig illileg úr þegar hann var klæddur í blátt. Þetta hefur markað líf hans síðan og hann er alltaf klæddur í jarðarliti til þess að skera sig ekki úr. Hann hefði viljað vera í hvítu á þessu mómenti.

Þetta er að sjálfsögðu klár niðurlæging fyrir litlu stúlkubörnin sem fæðast í þennan  heim svo og kvenþjóðina alla. Við lifum í hræðilegri drengjaveröld svo vitnað sé í aðra ekki síður klára konu.

Sem betur fer skilst mér að þingfólk séu að fá aðstoðarþingfólk ( sbr aðstoðarfólk ráðherra/fólks ) þannig að þá sjáum við vafalítið fleiri svona þjóðþrifamál koma upp á yfirborðið í framtíðinni.

Burt með kjólana og prjálið. Burtu með endalausa niðurlægingu kvenna þessa heims. Burtu með hræðilegu drengjaveröldina !  


Tilvonandi Grande Tenore

Við Anna kíktum til Írisar til að passa aðeins hann Úlfar okkar. Hann er búinn að vera nokkuð erfiður undanfarið, lítið sofið og mikið grátið. ástæðan fannst reyndar nú fyrir helgi þegar í ljós kom hjá þriðja lækninum sem hann fór til að hann væri með eyrnabólgu. Penisilín og hann strax orðinn betri. Nema kannski í gærkveldi þegar við vorum að passa...

Ég hafði ekki hugmynd að svona lítið barn gæti gefið frá sér svona mikil hljóð. Hann var alveg o.k til að byrja með, bara brosti til gamla settsins en þegar hann fattaði að mamma og pabbi voru farin þá ætlaði allt um koll að keyra. Pavarotti hefði verið ánægður að geta gefið frá sér þvílíka tóna en sem betur fór sofnaði hann í fanginu á Ömmi sinni.  Samt var svo yndislegt að fá að halda á þessum litla ( feita með spékoppa alls staðar ) líkama en hann verður að fá að venjast afa og ömmu betur.JoyfulKissing

Ræktin í morgun, ó boj ..


Helgin mínus einn

Mánudagurinn brosir blautur og dimmur og síðast þegar ég vissi þá var laugardagur. Ég fór nefnilega að hitta vini mína í villibráðarveislu á laugardagskvöldið og það var svo gaman að sunnudagurinn var eiginlega ekki með. Anna fór að syngja á 2 tónleikum fyrir Sparisjóð Kópavogs í gær þannig að það var meira en nóg að gera hjá henni.

Ég hins vegar var duglegur á laugardag en þá réðst ég í það að taka kjallarann í gegn og naut svo aðstoðar Önnu þegar hún kom af æfingu. Við erum komin töluvert áleiðis og þá er maður alltaf ánægður. Nota svo vikuna í þetta þar sem ég fer ekki á neinar æfingar.

Chiao for now.


Minningartónleikar Stulla

Tónleikar í minningu elsku Stulla okkar verða haldnir mánudaginn 10.desember kl. 20. Það eru Fóstbræður og Raddbandafélagið sem standa að tónleikunum og það verður örugglega gaman. Geri ráð fyrir að það kosti ca kr. 1.000 inn til að eiga fyrir kostnaði og kannski einhverjum afgangi sem verður þá notaður í minningu Stulla. Sem sagt, taka frá mánudagskvöldið 10. des.

Ég sakna hans óumræðanlega mikið og er alltaf með hann í kollinum. Setti mynda af honum hér til hliðar.


Ráðagóði róbotinn

Anna fór í bakinu enn eina ferðina í byrjun vikunnar og er eflaust um að kenna of miklu álagi út af áhugamálunum. Sérkennilegt að vera í áhugamáli sem er alveg að buga mann. Hún dó ekki ráðalaus frekar en fyrri daginn og pantaði sér tíma hjá kínverskum nuddara.

Þegar hún kom á staðinn varð á vegi hennar hár og myndarlegur kínverji sem gat sagt henni allt um hvað amaði að henni. Hann átti svo einn lítinn kínverja sem hann hrópaði skipanir til og áður en Anna gat sagt hó hó hó þá var búið að afklæða hana og skella henni upp á bekk. Litli kínverjinn ( sem betur fer var það sá litli ) hoppaði upp á bakið á henni og tók að ganga og hlaupa þar um eins og hann ætti heima þar.  Eins gott hann kunni ekki öll gangafbrigði íslenska hestsins því þá hefði getað farið illa. Einhverra hluta vegna var Anna svo brosandi þegar ég sótti hana eftir meðferðina og ég veit sko fyrir víst hvað ég geri næst þegar Anna biður mig um að vera góður við sig og er ég strax farinn að æfa hin ýmsu gang afbrigði ...Shocking

Hún Steinunn Valdís nýjasta þing ja,, persóna Íslendinga ætlar heldur betur að stimpla sig inn á Alþingi því nú ætlar hún að flytja frumvarp um tímamótamál, eitthvað sem lengi hefur brunnið á þjóðinni og mun án efa koma henni til hjálpar á ögurstundu. Nú á að finna nýtt nafn í staðinn fyrir ráðherra. Minna má það ekki vera. Alveg með ólíkindum að svona stórt mál hafi ekki löngu verið búið að leysa.  Ég legg til að í þvílíku þjóðþrifamáli verði efnt til alsherjar þjóðar atkvæðagreiðslu til að finna út hvert nafnið á að vera á ja,,, ráðfólki Íslands.

Það kom eitt nýtt nafn fram í gær sem var ansi gott og þjált: Ráðherfa, svona til mótvægis við Ráðherra. Þannig yrðu til ráðherrafrú og Ráðherfuherra o.s.frv. Mér datt í hug annað nafn sem kannski lýsir vel þessum málatilbúnaði þ.e. Frú Ráðþrota og Hr Ráðþroti.

Eftirfarandi frétt var í MBL um daginn:

Stöðumælasektum hefur fækkað á Akureyri eftir að nýtt kerfi var tekið upp í bílastæðamálum þar í bæ fyrir tveimur árum þar sem bifreiðum er lagt endurgjaldslaust í miðbænum í allt að tvo tíma.

Þetta er að sjálfsögðu tímamóta frétt og vafalítið hefði engum órað fyrir þessu. Aldrei að vita nema að sektunum myndi jafnvel fækka enn frekar ef bifreiðastæðin yrðu endurgjaldslaus allan daginn GetLost

Herra kaldhæðinn .....


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband