Sólsetur á Hornströndum

Í myrkrinu, skammdeginu og kuldanum sem nú hrjáir okkur öll þá setti ég inn nýja mynd frá því í sumar. Svona aðeins til að ylja okkur þó ekki sé nema um hjartarætur ...

Englasöngur

Fór á æfingu í gærkveldi að venju og síðan beint á nemendatónleika í Söngskólanum við Snorrabraut. Ástæðan var sú að fallega vinkonan okkar hún Vala var að syngja en þetta var prófverkefni hjá henni. Hún er að ljúka 7. stigi að ég held og söng eins og engill. Þær voru 3 saman og þetta varð hin besta skemmtun. Dálítið löng að vísu og við vorum ekki komin heim fyrr en um kl. 11.

Svaf eins og steinn í nótt og ætlaði ekki að trúa því að klukkan væri að verða 7 þegar Anna hristi mig n.b. til að fara í leikfimi Sleeping

Fóstbræður munu syngja bæði með Björgvini Halldórs og Frostrósum en ég er búinn að ávkeða að sleppa báðum tónleikunum. Þeir verða á svipuðum tíma og ég fæ eldhúsinnréttinguna og því verður víst nóg að gera...


Hausverkur

Er ennþá hvorki heill né hálfur maður, svona heldur  ósjálfbjarga því er ver.  Er orðinn frekar leiður á því, vildi langtum frekar bara fá almennilega flensu sem klárast svo þegar ég er búinn að liggja. En nei, bara mæta í vinnuna með hálfa heilsu Pinch

Það er nú samt ekki eins og helgin hafi verið auðveld, sei sei nei. Við Anna vorum með fullt fangið af börnum alla helgina og eins og það er nú yndislegt þá held ég að ég sé að verða of gamall fyrir slíkt. Hjá okkur voru Anton og Anita sem gistu hjá okkur báðar næturnar og svo kom Jökull til okkar á laugardaginn og var hjá okkur fram á sunnudag. Það var náttúrulega heljarinnar keppnu um þann gamla og mátti ekki milli sjá hvor hafði betur, Anton eða Jökull Wink En þrátt fyrir allt var bara æðislegt að hafa svona margar litlar tær og lappir tifandi um íbúðina okkar

Fórum öll saman í sund á laugardag í þvílíku leiðinda veðri , svo kalt að lillinn á mér hvarf upp í kvið. Anna var svo sem ekki mikil hjálp á laugardeginum því hún hvarf 3svar yfir daginn. Endaði daginn með að syngja í brúðkaupi aldarinnar en þið megið ekki segja neinum frá því, hush,hush.

Í gær fór ég svo í vínsmökkun aldarinnar en þá fór ég ásamt 25 öðrum að smakka 11 árganga af súper toscan víninu Chepparello og þvílík vín ! Víngerðarmaðurinn og frumkvöðullinn Paolo de Marchi var sjálfur að kynna vínin og hann er æðislegur kall sem smitaði okkur alla með ástríðu sinni. Ég átti svo að borða með honum og nokkrum útvöldum á Holtinu en varð frá að hverfa sökum heilsuleysis. Því miður, því frétti náttúrulega af því þegar ég druslaðist í vinnuna að þetta hefði líklegast verið besti matur sem þeir hefðu borðað á Íslandi og í hópnum voru eingöngu matgæðinar !! Og vínin,,!! úllala. Heppinn ..??

Bætti þó altént ekki á hausverkinn .....

 


Glæpamaður

Það er orðið opinbert, ég er glæpamaður. Ökuníðingur sem á sér varla viðreisnar von. Nú skil ég loksins af hverju Anna er alltaf á bremsunni grípandi í mig og öskrandi í bílsætinu við hliðina á mér. Hélt þetta væri bara hún.

Það náðist af mér mynd undir Akrafjalli skælbrosandi og sem betur fer ekki með viðhaldið við hliðina á mér. Ekki var ég nú var við að kinnarnar á mér væru flattar aftur að eyrun en ég var sum sé dæmdur fyrir að vera á 96 km hraða þar sem 90 km hámarkshraði er.  Veit ég nú að sumir fyllast hryllingi yfir þessu framferði mínu en hugsanlega á ég mér einhverjar málsbætur. Var að greiða sekt upp á 10.000 krónur til hins opinbera. Ég veit svo alveg hvert sá peningur fer því Sturla fyrrverandi samgönguráðherra er örugglega búinn að gera ráð fyrir honum upp í ferjukostnaðinn sem hann stofnaði til með heimsku sinni. Maðurinn hlýtur að vera fífl ef hann heldur að þessar hertu reglur í kringum hraðakstur verði til þess að fækka slysum. Ég held að við getum verið sammála um það að það eru ekki þessir auka 10 km upp í hundrað sem eru að valda þessum vanda heldur hraðinn frá 110 og upp úr.

Það er bara fáranlegt að mega ekki keyra á 100 km hraða á beinum vegi úti á landi. Þetta var í sjálfu sér í fínu lagi þegar maður hafði tolerance upp á ca 10 km en svo koma öfga mennirnir og þá fer allt í hund og kött.

Var að keyra kleppsveginn áðan, 2 akreinar í sitthvora átt og engin byggð alveg við veginn. Þar er leyfilegur hámarkshraði 60 km á klst. Þetta er jafn fáranlegt, þarna á auðvitað að vera 80 km hámarkshraði.

Ég er hundfúll yfir þessu, það er alltaf verið að refsa þeim sem síst skildi. Af því að brjálæðingar keyra á 150 km hraða og valda jafnvel stórslysum þá hlaupa menn upp til handa og fóta til að refsa mönnum eins og mér, sem rétt skríða yfir hámarkshraða. Ég er til fyrirmyndar í umferðinni, keyri alltaf eftir aðstæðum, gef alltaf stefnuljós, er alltaf á hægri akrein ef ég get, tala í handfrjálsan búnað  o.s.frv. Þetta er álíka og að skamma þá sem eru mættir á æfingu fyrir þá sem ekki eru mættir ...

Samt er ég glæpamaðurinn ... Bandit

 


Haugkaupsbrussan


Mjög hávær, óaðlaðandi og hreinlega brussuleg kona kom inn í Hagkaup einn daginn með börnin sín tvö, dró þau sitt í hvorri hönd, skammaðist í þeim og var hin versta um leið og hún gekk inn ganginn.

Strákur í kerrunum sá hana og heilsaði: "Góðan daginn frú og velkomin í
Hagkaup. En yndisleg börn sem þú átt. Eru þetta tvíburar?"   Forljóta konan

hætti að öskra á börnin og sagði við strákinn:  "Held nú síður. Sá eldri er
9 ára og hitt er að verða 7. Hvers vegna í fjandanum heldurðu það. Ertu blindur eða bara svona heimskur!?"

 "Ég er nú hvorugt, frú mín."  Segir strákurinn.  "  Ég get bara ekki ímyndað mér að þú hafir fengið að sofa hjá tvisvar!!

Hafðu það gott í dag og takk fyrir að versla í Hagkaup"


Semíflensa

Ég held ég sé haldinn semíflensu sem lýsir sér í því að ég er svona hálf veikur. Vakna með beinverki og er örþreittur á kvöldin en samt ekki með hita. Hálsinn er aumur þannig að ég verð að hvíla hann enda að fara í fyrsta söngtímann minn í Dómus Vox hjá Hlöðveri á morgun. Held ég verði að sleppa æfingunni í kvöld.

Hvað gerir maður við gamalt nautahakk ? Býr til eldri borgara ......


Eldhúsinnrétting til sölu

Ég er með fína eldhúsinnréttingu til sölu en hana má sjá á nýjustu myndunum. Hún selst með vaski ( ekki vsk ), ísskáp og eldunargræjum. Sem sagt, ein með öllu !

Eins og sést á myndunum er þetta fín innrétting og allar græjur virka vel. Ég bara skil ekki af hverju við erum að skipta ? Snobb, örugglega.

Jæja, hún er til sýnis heima hjá mér og verður tekin niður svona í byrjun desember. Gjarnan fá tilboð í pakkann. Megið koma þessu á framfæri fyrir mig ef þið nennið .....síminn hjá mér er  8216706. Call me or I´ll call you ..


Sönghelgi

Laugardagurinn var svakalegur og í framhaldi sunnudagurinn líka ...

Var mættur með kjólfötin með mér á æfingu í Fóstbræðraheimilinu kl. 10.30 á laugardagsmorgun og svo héldum við 32 Fóstræður ásamt ca jafnmörgum Vox Feminae konum í rútu upp á Akranes. Æfðum þar allan daginn og sungum svo frábæra tónleika fyrir fullum sal af fólki ( tók að vísu ekki nema 177 í sæti, en gríðarlega flottur tónleikasalur  ... ) Það var ótrúlega gaman að syngja með konunum, breyta aðeins til.

Ég tók með mér koníaks fleig og saup ótæpilega á honum á leiðinni til baka í rútunni og síðan fórum við í mat til Möggu Pálma, Bjössi og fl Fóstbræður komu svo þangað og síðan var haldið í bæinn. Við Anna fórum að vísu heim á skaplegum tíma um 2 leitið að ég held en samt var sunnudagurinn ónýtur. Koníak fer ekki vel í mig.

Vorum samt mætt fyrst í brunch morguninn eftir hjá Hildu systur en systkynin og Pabbi og Erna hittumst þar. Anna fór svo í leikhús með Jökul og ég skil ekki hvað hún var hress í gær.

Hefði alveg getað þegið einn auka frídag ..... 


Á tali

Mér leiðist að tala í síma en svo virðist að ég sé eins og síðasti Geirfuglinn því allir aðrir hreinlega elska að tala og mala í síma.

Ég fór í Bónus í gær og var þar á eftir enskumælandi konu sem malaði svo mikið í símann að hún hafði ekki tíma til að setja ofaní pokana. Ég veit allt um ástarlíf hennar, fyrrverandi kærastinn hennar skilur ekki að þau séu hætt saman og er með alls kyns vitleysu í gangi. Ég hef virkilega viljað sleppa því að kynnast henni. Ég var í bakaríi um daginn og þá var ungur maður með símann í eyrunum og gat ekki komið pöntuninni út úr sér af því að hann þurfti svo rosalega að segja vini sínum frá gærkveldinu, ekki seinna en akkúrat núna ! Fór í videoleigu í gær og þar var ungur maður að afgreiða mig og um það bil sem ég ætlaði að segja honum kennitöluna mína þá hringdi gemsinn hanns. Auðheyranlega vinur hans í símanum og ekki gat hann sagt hringi í þig seinna. Nei, heldur bandaði hann hendinni til mín til að þagga niðrí mér þegar ég gerðist óþolinmóður og kláraði símtalið áður en hann sneri sér að mér.

Ég sé varla bílstjóra öðruvísi en blaðrandi í símann og þá sérílagi ungar konur sem veitir nú ekki af því að hugsa eingöngu um aksturinn. Í ræktinni, á brettinu og ef kominn væri vatnsheldur sími þá væru menn syndandi með hann í hendinni.

Ég skil þetta ekki. Mikið rosalega hljóta allir að hafa mikið að segja. Ég hlít að vera ótrúlega leiðinlegur miðað við aðra.  

Ég held að síminn sé orðinn mikilvægasti hluturinn í lífi flestra enda maka símafyrirtæki krókinn svo um munar. Hann er orðinn órjúfanleg heild í lífi mannskepnunnar og framlenging á líkama okkar. Einhvern tímann í framtíðinni verður stökkbreyting og í stað annarar handarinnar kemur fullbúinn sími sem stjórnar öllu ....

 Hjá mér er á tali .....


Vox Feminae

Við Fóstbræður fengum í heimsókn til okkar besta kvennakór á landinu í gærkveldi. Um er að ræða Vox Feminae og það vill svo til að það er einmitt kórinn sem Anna Birgitta er í. Við erum að fara syngja með þeim næsta laugardag á Akranesi. Það er því vel þess virði fyrir alla unnendur kóratónlistar að bregða undir sig betri bílnum og renna upp á Akranes. Óvitlaust að búa til safnaferð í leiðinni því þeir státa af frábærum söfnum á Akranesi.

Margrét Pálmadóttir stjórnaði æfingunni í fjarveru Árna kórstjóra og ég held að ekki sé hægt að finna kórstjóra sem eru jafnólík og þau tvö.  Árni algerlega á jörðinni meðan Magga Pálma er í 3000 feta hæð og tilfinningarnar flæða óhindrað. Við höfum svo sem gott af því að finna aðeins innri manninn í okkur eða í það minnsta að leita að honum.

Hvað sem því líður þá tókum við vel á móti þeim og skipulöggðum við Valdi bakari móttökuna. Valdi er skreytingameistari hjá Jóa Fel og bakaði 2 þvílíkar tertur og skreytti og það hreinlega ískraði í stelpunum þegar þær komu og sáu herlegheitin. Ég bauð svo upp á Dr.Loosen riesling með kökunni og var almenn hrifning með vínið enda frábært vín á ótrúlegu verði. Það var virkilega gaman að fá þessar yndislegu konur í heimsókn.

Anna er að fara út að borða með nokkrum í vinnunni sinni í kvöld og mér er boðið á nokkra staði. Held samt að ég verði bara heima og slaaaaaaaaaaki á, orðinn þreittur eftir æfingar og heimsókn útlendinga í vikunni.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband