Í stuði

Ég keypti 2 veggljós um daginn til að setja upp í stofunni. Þetta eru svona nýtísku veggljós, silfurklumpar sem lýsa nánast ekki neitt, en lúkka vel. Svo þurfti náttúrulega að setja þau upp og það er sko ekki heiglum hent. Ég bara skil ekki hvernig allt þarf að vera flókið sem viðkemur byggingum.

Inní hvorri dósinni á veggnum voru 5 vírar, 2 rauðir, 2 hvítir og einn einmanalegur hvítur. 2 vírar komu úr sitthvoru rörinu inn í dósina, annar rauður og hinn hvítur. Ég hefði ímyndað mér að 2 vírar í eitt veggljós væri alveg nóg. Hvað um það, ég var búin að troða 2 vírum, fyrst einum hvítum og einu rauðum úr sitthvoru rörinu, síðan einum rauðum og einum hvítum úr sama rörinu í sokinn á veggljósinu en allt kom fyrir ekki. Ekkert ljós kviknaði á fjandans veggljósinu. Vírarnir voru svo stuttir að ég þurfti verulega að taka á því til að troða þeim í sokkinn í veggljósinu. Ég endaði því með krullað hár og ekkert ljós eftir að hafa fengið stuð frá rafmagninu. Shocking Það var í það minnsta rafmagn í vírunum og hugsanlega eru þessi nýtísku ljós bara ekki með ljósum, svona frekar upp á punt.

Er að fara í jarðaför. Það er verið að jarða Rolf Johansen stórkaupmann og vin. Þar er stórkostlegur persónuleiki farinn á vit feðranna. Það var svo gaman hvað allir kunnu skemmtilegar sögur af Rolf, hvort sem voru leigubílstjórar, gamlir þjónar eða aðrir. Ef ég minntist á að ég væri að vinna hjá Rolf Johansen & Co þá brást það ekki, einhver kom með nýja sögu. Mikið er gott að þjóðfélagið eigi menn eins og Rolf því þeir gefa lífinu gildi. Menn sem alla tíð lifa lífinu til fulls.

Blessuð sé minning þessa mæta manns.

 


Sýndarveruleikinn í miðbænum

Það er ótrúlegt hvað hægt er að sjá sama hlut frá mörgum mismunandi sjónarhornum. Það hafa komið fram svo margar og mismundandi skoðanir um ástandið í miðbænum að eina leiðin til að finna út hvað er rétt og hvað er rangt er að fara sjálfur niður í miðbæ um helgar. Þar er kannski kominn skýringin á því hversu margir eru í miðbænum um helgar ...

Að öllu gamni slepptu þá er verulega sérkennilegt að fylgjast með þessari umræðunni og ekki síst um hverju er að kenna. Sitt sýnist hverjum. Lögreglan segir að þetta sé veitingamönnum að kenna,  veitingamenn segja að þetta sé fámenni lögreglunnar að kenna, Villi segir að þetta sé opnunartímanum að kenna svo ekki sé talað um ísskápnum fræga í Austurstrætinu. Íbúar í mibænum kenna svo öllum og öllu framangreindu um og enginn reynir að kafa dýpra í málið. Allir segja bara    " ekki benda á mig "

Getur verið að hægt sé að leita skýringu á sóðaskapnum, tillitsleysinu og ofbeldinu annars staðar ?

Er hugsanlegt að við þurfum að líta örlítið inná við og taka til í eigin ranni áður en farið er að kenna öðrum um ? Ég er dálítið hræddur um að núverandi ástand endurspegli dálítið umgjörð og uppeldi barnanna okkar sem nú eru orðin " fullorðin " og mætt í miðbæinn um helgar.  Ég er dálítið hræddur um  að tillitsleysið og sóðaskapurinn sé vegna þess að við höfum ekki kennt þessum börnum að taka til eftir sig. Allt of oft heyri ég um foreldra sem taka til eftir börnin sín, sem vaska upp eftir börnin sín, sem þrífa allt eftir börnin sín o.s.frv. Þegar börn alast upp við það að það sé til hlutur sem heitir Mamma og eltir mann um allt hirðandi upp allt sem maður skilur eftir þá er eðlilegt að þau haldi bara að þannig gangi hlutirnir fyrir sig. Eða ef þau alast upp við það að týnd húfa sé sama og ný húfa þá er eðlilegt að virðingin fyrir hlutum sé ekki til staðar. Svo ekki sé talað um aðal uppalandann, tölvuna. Í sýndarveruleikanum í þeim leikjum sem börnin eru að leika í dag er bara eðlilegt að kýla, sparka í eða janfvel limlesta hvern sem er því þeir snúa alltaf til baka sem nýir þegar ýtt er á reset takkann.

Ég held að þarna þurfi um við að taka verulega til og þarna getur hið opinbera komið inní með námskeiðum og jafnvel kennslu í framhaldsskólum. Hvort ætli sé mikilvægara að læra að beygja orðið " dum " í dönsku, læra um hver er aðal atvinnuvegurinn í Kuala Lumpur eða læra hvernig á að ala upp börnin okkar.

Við erum öll sek í þessu og ég er örugglega ekki barnanna bestur hvað viðkemur uppeldi en það þýðir aldrei að ráðast á afleiðingarnar, það verður að finna rótina.

Það sama á við um áfengi og umgengni við það. Hvort ætli sé betra að berja alltaf hausnum við stein og banna, banna og banna ungu fólki að umgangast áfengi eða kenna því að umgangast áfengi. Ég held einmitt að verstu drykkjulætin séu í þeim löndum sem mestu höftin og hræsnin eru. Ef við viðurkennum þá einföld staðreynd að fólk undir tvítugu drekki áfengi ef það svo vill þá getum við byrjað á því að kenna því fólki hvernig á að drekka, ekki bara banna.

 

 


Kraftur og vellíðan

Svei mér þá ef ég er ekki eitthvað aðeins að lifna við.

Þegar ég kom heim í gær tók ég mig til í góða veðrinu og sló allan blettinn í kringum húsið okkar. Ég var svo sveittur á eftir að ég þurfti að fara í sturtu. Anna sá um að raka og ganga frá. Í morgun fórum við svo í ræktina og tókum verulega á því. 

Langar virkilega að fara að veiða í kvöld en sjáum hvað setur. Það er 31° hiti á Mallorca og glampandi sól ef einhver hefur áhuga á að vita það Cool


Sæla í Sælingsdal

Mikið óskaplega er gott að komast í sveitina og sér í lagi í svona skemmtilega og vel skipulagða ferð eins og ég var í. Það er undur fallegt á Hótel Eddu í Sælingsdal og aðstaðan með ágætum. Veðrið var ágætt, skiptust á skin og skúrir og við undum okkur vel í göngutúrum, leikjum, við söng og partí stemningu. Við Anna gistum á hótelinu og treystum okkur ekki að sofa í tjaldi enda fór hitinn verulega niður á nóttinni. Jökull var með okkur þannig að hann virkaði eins og " handbremsa á hugann lamandi " eins og sagði í Stuðmanna textanum forðum. Við fórum sem sagt tiltölulega snemma að sofa og heilinn lítt vankaður eftir drykkju bæði kvöldin Sleeping

Yndisleg helgi að baki.

   


Gleði og sorg

Mætti í vinnuna í morgun og fékk slæmar fréttir, góður vinur látinn.

Næstu fréttir sem ég fékk var vefkort frá minni yndislegu eiginkonu þar sem hún óskaði mér til hamingju með tuttugu og sex árin sem við höfum verið saman. Fyrsti kossinn fyrir 26 árum. InLove

Þannig að það er skammt stórra högga á milli.

Í tilefni þessa merka dags erum við að fara í helgaferð í Sælingsdal fyrir vestan með 55 manns, konum, körlum og börnum frá Línuhönnun. Anna er búin að vera að skipuleggja ferðina ásamt Sigfríð og svei mér þá ef þetta verður ekki frábær ferð. Meira að segja veðrið ætlar að vera okkur hliðholt en það leit nú ekkert vel út í fyrradag. Það er alltaf æðislegt að fara í sveitina og anda að sér fersku sveitaloftinu og hvíla hugann. Tala nú ekki um með skemmtilegu fólki og skemmtilegast af öllu er að við ætlum að taka Jökul litla með og hann hlakkar mikið til.


Kraftur hafsins

Þar sem ég náði ekki að hrista af mér þetta slen þá ákvað minn betri helmingur að gera eitthvað í málinu og bauð mér í bíltúr á Eyrarbakka. Stoppuðum tvisvar á leiðinni, fyrst í Raufarhólshelli og síðan við brúna yfir Ölfusá. Við ákváðum að láta nægja að kíkja bara oní hellin úr fjarlægð þar sem við vorum hvorki með hjálm né vasaljós. Mikið hafði augsjáanlega hrunið úr loftinu við inganginn í hellinn og mér fannst vandséð hvað hjálmur hefði hjálpað þar. Þvílík björg sem farið hafa af stað og ég sá ekki betur en að meiri hlutinn af loftinu væri hálf laus. Yrði ekki hissa þó einhver ætti eftir að meiða sig þarna. Við gengum svo niður í fjöru og önduðum að okkur sjávarilminum og horfðum á brimið sverfa klettana. Anna öskraði svolítið ( útrás ) og vonaðist til að kraftur hafsins myndi feikja sleninu í mér í burtu. Ég er ekki frá því að eitthvað hafi gerst, allavega kólnaði ég töluvert í andlitinu.

Litum svo við í rauða Húsinu og fengum okkur fiskisúpu sem var allt í lagi. Síðan heimsóttum við hann Sverrir vin okkar sem er listmálari og eigandi á Óðinshúsi á Eyrarbakka. Við komum til baka með 4 málverk sem við fengum lánuð til að máta hjá okkur. Það getur reynst dýrt spaug að fara með Önnu á Eyrarbakka Woundering

Fórum í ræktina í morgun og ég hugsa bara með hryllingi hvar ég væri ef það væri ekki slen yfir mér W00t, væri eins og Depill ( Depill í sundi, Depill í baði, Depill .... )


Róleg helgi

Þrátt fyrir að menningarnóttin fræga hafi verið síðustu helgi var ég mjög rólegur. Var að vísu að syngja frá kl eitt til kl sjö um kvöldið á laugardag með Fóstbræðrum og eftir að hafa borðað teikavei eftir það, nenntum við hreinleg ekki í bæinn. Öðruvísi mér áður brá. Vorum með Maríu Björk og Ásthildi um helgina og áttum með þeim góðar stundir.

Er hálf slappur núna og næ ekki að hrista af mér slenið.

Sjáum hvað setur.  


Austurstræti, ys og læti

Þá er búið að finna út úr því. Borgaryfirvöld í samvinnu við Lögreglustjórann okkar er búinn að uppgötva ástæðurnar fyrir því mikla ofbeldi sem er í miðbæ Reykjavíkur um helgar.

Snillingarnir frá Lögreglunni eru búnir að fatta það að það er veitingsstöðunum að kenna og engum öðrum.  Hvernig það getur verið þeim að kenna er mér að vísu hulin ráðgáta en hei, ég er nú bara svona meðalgreindur og varla það.  Það er því lausnin að loka skemmtistöðum mun fyrr og það hlítur að verða þess valdandi að ekkert ofbeldi verður í miðbænum og ekkert fólk heldur. Það er bara líklegast að allir hætti að skemmta sér í kjölfarið og unga fólkið hætti að hafa áhuga á að vera að djamma langt fram eftir.  Þvílíkt snjallræði hjá Lögregulstjóranum að sjá þetta fyrir, auðvitað er þetta bara skemmtistöðunum að kenna.

Annar snillingur hefur að vísu líka aðra skoðun á þessu vandamáli og heldur því fram að ástæðan fyrir þessu eilífa fylliríi sé Vínbúðin í Austurstræti svo ekki sé talað um þessa frábæru þjónustu sem þeir veita þar. Það hefur jafnvel heyrst að starfsfólkið í vínbúðinni sé að leiðbeina fólki um val á vínum og sendi kúnnanum jafnvel bros þegar vel liggur á því. Þetta er náttúrulega stór hættulegt og getur auðveldlega aukið drykkju í miðbænum um helgar. Því segir borgarstjóri vor, ef þessari búð verður ekki lokað þarf í það minnsta að minnka þjónustulundina hjá starfsfólkinu. Bannað verði að tala og brosa og ekki verra ef starfsfólkið verðir með hundshaus og fúlt orðabragð inn á milli. Nú er maður loksins farinn að skilja af hverju sjálfstæðismenn geymdu Villa í borgarstjórastólinn þangað til síðast, hann átti að vera svona rúsínan í pylsuendanum....

Var að borða súpu í hádeginu í gær í bakaríi og las moggann á meðan. Sá mér til skelfingar að einn af mínum betri vinum á menntaskólaárunum var látinn, rúmlega fimmtugur. Guðmundur Hafberg var hugsa ég sá einstaklingur sem ég bar hvað mest virðingu fyrir í þá daga, persónuleikinn var slíkur að hann skar sig úr. Ég fór í jarðarförina í dag og fékk staðfestingu á því að hann hafði hvarvetna skilið eftir sig góð meðmæli og verið allra manna hugljúfi.  Blessuð sé minning hans og guð vaki yfir ástvinum hans á þessari sorgarstundu.

Þetta sýnir manni æ betur að það borgar sig ekki að bíða þangað til seinna að lifa lífinu. Enginn veit sína ævi alla og það er nákvæmlega núna sem við eigum að njóta þess.

Á morgun er menningardagurinn og þá verða allir að njóta lífsins. Ég verða að vísu fjarri góðu gamni frá hálf tvö til ca 7 um kvöldið þar sem ég er að syngja í Austurstræti fyrir Glitnir og síðan í 2 brúðkaupum og jafnmörgum veislum.

Njótum lífsins !


Alls kyns menning

Það er búið að vera fullt að gera og lítill tíma til að blogga.  Fórum að sjálfsögðu í bæinn síðasta laugardag á geipræd og með í för voru Inga klemma, Íris og lilli ( fyrsta bæjarferðin hans ). Áttum yndislegan dag saman og fengum okkur bjór,hvítvín og kaffi á fallegum litlum stað í Lækjargötunni sem heitir Litli Ljóti Andarunginn. Kíkti svo heim til Ingu og Hjálmars og grilliðum þar ásamt Siggu og Sævari. Ákváðum svo að skella okkur á Milljónamæringana á Broadway til að fá útrás fyrir dansfimina.

Þvílík mistök ! Fátt var um manninn þar og hljómsveitin alls ekkert til að hrópa húrra fyrir. Lélegt hljóðið og allt of rólegt yfirbragð yfir tónlistinni. Þegar Laddi var að byrja á sjötta laginu sínu, Austurstræti, þá var okkur nóg boðið og við létum okkur hverfa.  Bara til þess að þurfa að labba bæinn á enda til að finna leigubíl. Alls ekki ferð til fjár og kennir manni að vera ekki að þessu bæjarrölti. Fór samt daginn eftir með Hjálmari í Þingvallavatn að veiða en fengum reyndar engan fisk.

Er að fara á æfingu í kvöld til að æfa fyrir 2 brúðkaup á laugardag og svo syng ég líka við útibú Glitnis í Lækjargötunni kl. 13.30. Það verður því sannkölluð menningarveisla hjá okkur hjónum á laugardag því Anna er líka að syngja með sínum kór.


Brunch

Strax orðinn miklu betri og munaði engu að ég færi í ræktina aftur í hádeginu. Ég er orðinn svo góður að við Anna erum að spá í að hafa brunch á morgun með öllu tilheyrandi ( bjór,hvítvín,rauðvín o.s.frv. ) svona rétt áður en maður skellir sér í skrúðgönguna. Þarf að leita að þröngu leðurbuxunum mínum og netavestinu í kvöld. Ef einhver á leið fram hjá Ásgarðinum og er þyrstur eða svangur þá endilega kíkið við, verður að öllum líkindum upp úr hálf tólf.  Ég fór í sjall la la la lann sem brann Shocking

Anna klæðist í korselett

Addi kominn í leðursett

þau fara svo sæt svona svaka geipræt

í skrúðgöngu ganga svo nett.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband