Tækjafrík

Seint verð ég talinn tækjafrík og oftar en ekki kvartar Anna yfir því. Hún vill reyndar að ég sé tækjafrík, tilbúinn með iðnaðarsvuntuna mína þegar á þarf að halda, skipuleggjari, söngvari, dansari skrúðgarðameistari og ,,,, jæja ég er sem sagt ekkert tækjarfrík. Sagir eru síðan þau tæki sem mér er minnst um gefið og ég lennti í einni slíkri í gærkveldi. sé alltaf fyrir mér myndina sem ég sá í smíði í skóla í gamla daga þar sem viðarbútur fór í gegnum einhvern þegar hann var að saga.

Ég fór til þessa að leggja flísar hjá Írisi dóttur minni og fékk lánaða flísasögina hans Óskars.  Skellti henni saman og setti vatn á þar til gerðan stað , mældi út og ætlaði svo að byrja að saga. Þá kom í ljós að sögin var of lítil að sjálfsögðu eða flísarnar of stórar, veit ekki alveg hvort var. Flísarnar voru reyndar í stærri kantinum, 30x80 cm og ég þurfti að reyna að saga fríhendis. Það þýddi að ég sagaði dálítið skakkt sem er alger banabiti fyrir meyju eins og mig sem vill hafa allt upp á millimeter. Við Andri þjösnuðumst þó til að leggja á hálft gólfið og ég kófsveittur yfir söguninni.  Við náðum að klára ca helminginn þegar sögin ákvað bara að hætta að saga, það var ekkert bit í sagarblaðinu eftir.  Að auki tók ég eftir að það átti eftir að ganga almennilega frá niðurfallinu undir vaskinum og því ekki hægt að sníða flísar meðfram því. Ekki svo að sögin hafi svo sem ráðið við slíkt en þetta segir mér dálítið til hvers iðnaðarmenn eru og hvað það getur reynst heppilegt að vera með þar til gerð tæki og tól sem passa.

Áður en ég klára þetta þá ætla ég að vera búinn að skoða flísasagirnar sem hægt er að leigja hjá Húsasmiðjunni og mæta með eina slíka. Hver veit nema ég kaupi mér bara eina iðnaðarsvuntu líka svona til að lúkka rétt.


Hvað er að gerast ?

Maður sofnar í sól og maður vaknar í sól en samt er maður á Íslandi ! Æðislegt. Fengu "gamla settið", Eddu og Bóas í mat í gær og ég grillaði kótur og kjúklingaleggi. Borðuðum úti í garði og áttum mjög góða stund saman. Edda leit æðilega vel út og ekki annað að sjá en hún sé mjög að ná sér eftir veikindin.  Þvoði svo gluggana að utan enda ekki hægt að hanga inni í slíku veðri.

Er að fara að leggja gólfflísar hjá Írisi eftir vinnu í dag í þessu líka sólskininu en mér er alveg sama, bara hálf fegin þar sem ég er enn eins og karfi og þarf að hvíla húðina aðeins. ÍObúðin hjá Írisi er að verða þvílíkt flott eftir að Óskar lagði hjá henni parket og ég verð að segja það, þessi drengur er harðduglegur og listasmiður. Ánægður með hann.  Svo þegar flísarnar verða komnar þá getur Íris mín bara farið að eignast nýja barnabarnið mitt, ég er alveg tilbúinn Smile

Veit ekki kynið en ef þetta er stelpa þá Guð hjálpi barninu því Anna verður trompuð !

Er með hálsbólgu og eyrnarverk sem leiðir alla leið upp í skalla, líður eins og hvítvoðungi. Kannski er ég bara brunninn á skallanum eftir helgina Sick


Í útileeegu

Kominn heim rauður eins og karfi, veðurbarinn og flottur. Þetta var yndisleg útilegu helgi þar sem við kynntumst nýju fólki, fukum upp og niður fjöll, sungum og höfðum gaman.  Settum okkur niður á tjaldstæði sem heitir Álfaskeið í Syðra Langholti. Mjög góður staður sem ekki allt of margir vita um því það var temmilegt af fólki.  Tjölduðum á föstudagskvöldið með Siggu og Sævar sem voru á húsbílnum, Rúnu og Stefáni sem voru á húsbílnum og Ingu Klemmu og Hjálmari sem gistu í nýja tjaldinu okkar.  Fengum ágætt veður það kvöld en svo byrjaði að hvessa og svefninn var því frekar rýr um nóttina. Hvessti enn frekar á laugardeginum og fortjöld á fellihýsum í kringum okkur fuku fjandans til en tjaldið okkar,, það stóðst allar raunir. Fórum samt í fjallgöngu og í sund á Aratungu. Báköstur og samsöngur um kvöldið eftir góða grillmáltíð.

Sunnudagurin var sérlega góður, algert logn og sólin skein. fórum aftur í fjallgöngu og tókum ekki saman fyrr en seinni partinn. Tókum menningar skrans til Eyrarbakka og sáum þar Seiðagjörning í Óðinshúsi og fengum okkur síðan humarsúpu á Stokkseyri. Fórum svo í löööööööngu biðröðina til Reykjavíkur. Vorum sam,t það afslöppuð að við litum við hjá Írisi áður en við fórum heim.

Löng og ströng helgi.

Setti inn nýjar myndir, annars vegar þar sem ég er að snæða grillaða keilu í garðinum mínum og hins vegar fr útilegunni.


Tjeins of plan

Bara til þess að menn fjölmenni nú ekki til að hitta mig um helgina á Laugalandi í Holtum þá vildi ég bara láta vita að samkvæmt nýjustu fréttum sem ég fékk frá Önnu og Siggu þá verðum við ekki þar. Eru víst hvorki meira né minna en 2 ættarmót á þeim stað þannig að verið er að spá í eitthvert tjaldstæði nálægt Flúðum.  Altént endum við á einhverju tjaldstæði með einhverju góðu fólki Shocking

Veðurstofa Íslands,, góðan daginn !

Í gærkveldi tíndi ég til ljósu jakkafötin mín, nýju orange stutterma skyrtuna mína og ljósu nýju leðurskóna mína og lagði þetta allt snyrtilega á stólinn því ég skildi aldeilis njóta þess að spóka mig um í sólinni í dag.  Jú það var sól kl 6 í morgun en svo allt í einu var orðið alskýjað og hér sit ég í ljósu jakkafötunum mínum , í ljósu leðurskónum mínum og fæ hornauga frá öllum sem sjá mig ...

Jæja, vonandi á þetta eftir að breytast og það er í það minnsta spáð sól og hita á morgun en þá mun ég njóta þess í útilegu.

Megið þið öll eiga yndislega helgi Cool


Hraðakstur

Í dag er gúrkutíð, ekkert markvert að gerast og meira að segja veðrið aðgerðalaust. Það veldur því að mótorhjólamenn og konur þessa lands eru lögð í einelti af fjölmiðlum og öðrum.  Það er nánast búið að segja þeim stríð á hendur og litið á allt þetta fólk sem ökufanta.

Það er ekki það að ég sé hrifinn af þessum tækjum, allt of mikill hávaði í þeim og oft hef bölvað hressilega eftir að hafa næstum fengið hjartaáfall þegar þeir þeysa fram úr manni.  Vissulega fara margir af þessum mönnum og hratt enda ímynda ég mér að það sé töluvert erfitt að halda aftur af sér með öll þessi hestöfl milli lappanna en að hugsa sér að það sé lausn að selja undan þeim hjólin eða gera þau upptæk er náttúrulega bara vitlaust.

Það má ekki gleyma því að flestir keyra of hratt og margir keyra allt of hratt. Á þá að gera bílana þeirra upptæka ? Endemis þvæla. Lausnin er að sjálfsögðu sú að hækka sektirnar og vera grimmari í að  svipta menn ökuleyfi. Við gætum t.d. haft lágmarkssektir fyrir þá sem 10 km eða minna umfram hámarkshrað en síða rukka kr. 10.000 fyrir hvern umfram kílómetra sem farin er upp fyrir hámark. Þannig myndi sekt fyrir þann sem keyrir á 110 km hraða úti á þjóðvegunum vera kr. 200.000 og ef það hreyfir ekki við fólki þá yrði ég verulega hissa.

Ég var vanur að keyra allt of hratt úti á þjóðvegum landsins en í hittiðfyrra var ég stoppaður á 114 km hraða ( við Blönduós, hvar annars staðar ) og fékk sekt uppá kr. 10.000. Það fór ótrúlega í taugarnar á mér að þurfa greiða þessa sekt, 10 þúsund kall út í buskann fyrir ekki neitt. Þetta kenndi mér hins vegar að keyra mun rólegar og mér líður svo miklu betur á eftir. annski kem ég 10 mínútum seinna á áfangastað en hei,,, hú kers. Ég get jafnvel aðeins verið að fylgjast með náttúrunni í stað þess að vera alltaf að skima eftir hvítum bílum.

Keyptum Vango tjaldið í gær og stefnan sett á Suðurland. Erum að hugsa um að fara á tjaldstæði rétt fyrir ofan Vegamót, gullfallegan stað með sundlaug og öllu. Fullt af góðum gönguleiðum, fossum til sð skoða o.s.frv. Man að vísu ekki eftir neinu veiðivatni í nágrenninu en vonandi verður það gaman að  ég hef ekki tíma í að veiða. Held að staðurinn heiti Laugaland í Holtum og ekki væri verra að sjá einhverja vini sína birtast þar óvænt .....


Myndir úr ferðalaginu

Ég var að setja inn 4 myndir úr fríinu okkar sem gefa örlitla innsýn í hvernig var. Þeir sem vilja sjá meira verða bara að koma í heimsókn Wink

Sumarið er komið dú dú dúú

Já sumarið er loksins komið í augum Íslendinga, sólin gægist á okkur milli skýjanna og úti er allt að 15 gráður.  Þegar ég segi þetta við vini mína í útlöndum þá hlægja þeir bara að mér og halda að ég sé að gera gys. Vaknaði í morgun í 7 gr hita þannig að hugsanlega ættum við að halda okkur aðeins við jörðina og vona að sumarið sé ekki komið, betra sé í vændum.

Hvort sem er þá eru allir búnir að taka fram stuttbuxurnar og pilsin og spóka sig í þessu júníformi niðri bæ.  Ég er svo sem einn af þeim sem kominn er í sumarskap og er búinn að vera skoða tjöld til að nota í góða veðrinu. Er að spá í að kaupa mér Vango tjald í Everest, 6 manna með 3000 mm vatnsheldni því það skiptir víst töluverðu máli á Íslandi. 2ja manna tjald myndi svo sem duga en betra er að gera ráð fyrir börnum og barnabörnum í framtíðinni. Ætlum svo að fara með Siggu Há og Sævari, kannski fleirum, í útilegu eitthvað út í buskann. Ákvörðunarstaðurinn verður ákveðinn rétt áður en lagt verður í hann. Spá frábæru veðri um helgina.

Fórum í grill í gærkveldi til Siggu og Sævars og áttum yndislega stund.  


Íslensk náttúra

Íslensk náttúra er yndisleg. Hún er meðal við alls kyns kvillum, þunglyndi, depurð, stressi og hverju öðru sem kann að herja á mann. Hún er ópíum nútímamannsins sem þeytist um til að uppfylla drauminn um veraldleg gæði. Ég var sem sagt í íslenskri náttúru um helgina.

Við Anna Birgitta fórum upp á hálendi um helgina með hópi af yndislegu fólki. Förunni var heitið upp í Lamndmennahelli til að veiða silung í vötnunum sem þar eru.  Við Anna fórum ásamt Helga og syni hans Sigurbjarti í bíl og Siggu H og Sævari sem fóru á húsbílnum sínum seinni part föstudags.Flestir fóru þó á fimmtudeginum og voru búnir að ná veiðihrollinum úr sér þegar við komum. Þetta var mjög afslappaður veiðitúr og nóg af fiski. Á tímabili var á í hverju kasti hjá mér ( var að prófa nýju flugustöngina mína ) í Frostastaðavatni og brosið hjá mér náði allan hringinn.   Á kvöldin grillaði svo hópurinn saman en hann samanstóð af 15 frábærum einstaklingum.  Eiki tók með sér gítarinn og hann og Sigurbjartur sáu um undirspilið og við hin sungum.

Yndislegur tími og þrátt fyrir að veðrið væri ekkert sérstakt er ótrúlega fallegt þarna upp frá. Helgi, Sigurbjartur, Sigga, Sævar, Steini, Hlynur, Guðbjörn, Eiki, Rikki, Alla, Bóbó, Hjölli og Katrín, Þakka ykkur kærlega fyrir unaðslega helgi.

Ég er að spá í að fara aftur út á land næstu helgi ...


Loksins leyfilegt að auglýsa áfengi

Nú hafa dómstólar landsins, þeir hinir sömu og klúðruðu Baugsmálinu og máli Ólíufélaganna sem sagt komist að þeirri niðurstöðu að það sé leyfilegt að auglýsa áfengi svo fremi sem sá aðili sem auglýsir passi sig á því að láta nafn sitt hvergi getið í auglýsingunni.

Frábært !

Virkilega til þess að auka tiltrú mína á dómskerfinu.


mbl.is Dæmdur í sekt fyrir að láta birta áfengisauglýsingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband